Bíó og sjónvarp

Vísir í samstarf við ÍKSA um Eddu

Björn Br. Björnsson, stjórnarmaður Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA) og Ásmundur Helgason, markaðsstjóri Fréttablaðsins, skrifuðu í gær undir samning um samstarf Fréttablaðsins og Vísis við Edduverðlaunin til þriggja ára.

"Fréttablaðið er með mikla útbreiðslu, er mikið lesið og nær vel til ungs fólks," segir Björn þegar hann var spurður hvernig honum litist á samstarfið. "Við erum mjög ánægð með samstarfið," segir Ásmundur. "Með þessu lítum við svo á að það sé verið að styðja við listir í landinu."

Mánudaginn 25. október verða tilnefningar til Edduverðlaunanna í 14 flokkum birtar hér á Vísi og í Fréttablaðinu. Þá getur fólk einnig byrjað að kjósa á Vísi, þar sem allar upplýsingar um verðlaunin verður að finna. Auk þess verður hægt að horfa á sjónvarpsmyndir af öllum tilnefningum í öllum flokkum og margt fleira.

Í hverjum flokki gefst fólki kostur á að velja á milli þriggja til fimm tilnefninga. Val almennings hefur 30% vægi á móti vali þúsund meðlima akademíunnar.

"Það hefur oftar en einu sinni gerst að atkvæði almennings ráði hver verður sigurvegari," segir Björn. "Það er af því val almennings er oft afdráttarlausara en val akademíunnar."

Í einum flokki, Sjónvarpsmaður ársins, verða engar tilnefningar, heldur verður hægt að kjósa einhvern af öllu því sjónvarpsfólki sem prýðir skjáinn. Auk þess að kjósa um Sjónvarpsmann ársins á Vísi mun Gallup spyrja um hug almennings í skoðanakönnun.

Edduverðlaunin verða afhent í beinni útsendingu þann 14 nóvember í Sjónvarpinu og hér á Vísi. Áhorfendur heima munu þá velja á milli fimm vinsælustu tilnefninganna úr þessum tveimur könnunum í símakosningu eða með SMS-sendingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.