Innlent

121 milljón í sekt

Örn Garðarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Brasserie Borgar var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða rúmlega 121 milljón króna í sekt fyrir rúmlega sextíu milljóna króna skattsvik. Á síðasta ári var hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fimmtán milljóna króna skattsvik og til greiðslu þrjátíu milljóna króna sektar. Örn hefur því nú slegið Íslandsmet í fésektum sem er samtals um 151 milljón króna. Örn stóð ekki skil á um fjörutíu milljóna króna virðisaukaskatti á árunum 1999 til 2001. Þá stóð hann ekki skil á greiðslum opinberra gjalda upp á rúmar tuttugu milljónir króna sem haldið var eftir af launum starfsmanna árin 2000 til 2001. Örn játaði greiðlega fjársvik sín við þingfestingu málsins síðasta dag septembermánaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×