Innlent

Skaðabætur fyrir símhleranir

Íslenska ríkinu var gert að greiða tveimur mönnum, fimmtíu þúsund krónur hvorum, fyrir símhleranir lögreglunnar á Blönduósi, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Mennirnir voru búsettir á sveitabæ í Húnavatnssýslu og grunaði lögregluna að kannabisræktun færi fram á bænum. Mennirnir voru ekki viðriðnir ræktun kannabisplantna. Með dómsúrskurði frá Héraðsdómi Norðurlands fékk lögreglan leyfi til að hlera og hljóðrita síma mannanna. Ástæða hlerananna voru orð ónafngreinds heimildarmanns. Skömmu áður hafði komið upp mál í umdæminu þar sem lagt var hald á mikið magn kannabisplantna. Dómnum þótti aðgerðir lögreglu ekki réttmætar, ekkert hefði bent til þess að mennirnir tengdust rannsókn á málinu sem hafði komið upp skömmu áður. Ekki var fallist að réttmæt ástæða hefði verið til að beita hlerununum enda séu meðal skilyrða fyrir því að þeim sé beitt að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi eða að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×