Innlent

Tíu innbrot í Reykjavík

Tilkynnt hafði verið um tíu innbrot í Reykjavík frá klukkan sjö í gærmorgun til klukkan þrjú í gærdag. Brotist var inn í sjö bíla og inn á tvö heimili og á kvennadeild Landspítalans. Gluggi var brotinn á kvennadeild Landspítalans og farið inn á skrifstofur tveggja lækna. Búið var að róta til á skrifstofunum og var talið að lyfseðlablokk hefði verið stolið. Farið var inn í íbúð við Hólmasel og stolið gallabuxum með tuttugu þúsund krónum, veski, skartgripum og reiðufé. Þá var farið inn í heimahús í Álftalandi og þaðan stolið myndbandstæki, farsíma, reiðufé og fleiru. Úr bílunum sjö var stolið geisladiskum, geislaspilurum, veskjum og skjalatösku sem kom í leitirnar skömmu síðar en ekki var vitað hvort eitthvað af skjölunum vantaði í töskuna. Úr einum bílnum sem stóð við Sundlaugarveg var stolið tösku með prjónadóti. Töskunnar er enn saknað en prjónadótið fannst skammt frá bílnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×