Innlent

Strompur í Norðurmýri fauk

Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út um hálfsjö í gærkvöld til aðstoðar vegna óveðurs. Tilkynnt var um að strompur í Norðurmýrinni í Reykjavík væri að fjúka, svo og þakplötur, skilti og grindverk í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Kallaðir voru út átta hópar og sinntu þeir á annan tug verkefna. "Við höfum verið í nær tuttugu verkefnum," sagði Gísli Ólafsson formaður svæðisstjórnar björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld. "Auk skorsteinsins sem var að fjúka í Norðurmýrinni fóru af stað þakplötur, gluggar, auglýsingaskilti, grindverk og aðrir lausamunir." Gísli sagði, að fok lausamuna af völdum roksins hefði byrjað í Norðurmýrinni í Reykjavík, en síðan færst ofar í bæinn. Þurft hefði að sina verkefnum í Kópavogi og Hafnarfirði. Meðal annars hefðu þakplötur losnað á gamla pósthúsinu í Kópavogi. Síðan hefði strengurinn færst upp í Árbæ og Grafarholtið. "Þetta er greinilega strengur að ganga yfir," sagði Gísli, sem bjóst við að lægði með kvöldinu. Björgunarsveitirnar ætluðu að vera á vakt fram eftir kvöldi eins og þörf krefði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×