Innlent

Veður olli usla á suðvesturhorninu

Morgunninn var erilsamur hjá lögreglu og björgunarsveitarsveitarmönnum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er vitað til að slys hafi orðið á fólki en veðrið olli talsverðum usla á suðvesturhorninu þótt vindhraðinn væri hvergi nærri eins mikill og á Suðurlandi. Um klukkan fimm í morgun fékk lögreglan í Reykjavík liðsinni frá björgunarsveitum vegna þess fjölda borgarbúa sem beðið hafði um aðstoð. Tíu björgunarsveitarhópar sinntu um tuttugu verkefnum í morgunsárið og höfðu ekki undan að sinna þeim beiðnum sem streymdu inn. Hemja þurfti báta, flotbryggjur og landganga í suðurbugt Reykjavíkurhafnar og ljóst er að töluvert tjón hlaust af. Sveitirnar heftu einnig fok á vinnupöllum á byggingarsvæðunum í Grafarvogi, Grafarholti og í Skuggahverfinu. Algengt var að þakplötur færu af stað, svalahurðir fykju upp og að eigendur fellihýsa bæðu um aðstoð við að hefta þau. Í Grafarvogi fauk strætisvagnaskýli til og vinnuskúr sömuleiðis en ferð hans endaði úti á götu. Þá þurfti að binda niður húsbíl sem var að liðast í sundur í mestu hviðunum. Veður var einnig afar slæmt á tímabili á Kjalarnesi og þangað var björgunarsveit send til að bjarga því að uppsláttur að húsgafli fyki ekki út í veður og vind.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×