Menning

Viðskiptaháskólinn á Bifröst

"Hjá okkur er um tvenns konar nám með starfi að ræða í Viðskiptadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst," segir Magnús Árni Magnússon deildarforseti og lýsir því nánar. "Það er í fyrsta lagi að taka þriðja árið til BS gráðu í fjarnámi á hálfum hraða. Þetta hefur verið í boði býsna mörg ár og yfirleitt eru um 50 manns í því. Síðan er það meistaranámið sem byrjaði í fyrrasumar. Það er þannig uppbyggt að menn koma í fimm vikna sumarlotu og eru svo í fjarnámi í framhaldi af því. Langflestir vinna með en nota sumarfríið í að koma á Bifröst og taka gjarnan fjölskylduna með sér í sveitasæluna. Við erum núna með 75 manns í meistaranámi, þar af byrjuðu 50 í sumar. Þar erum við með tvær námsgráður í boði. Annars vegar MS gráðu í viðskiptafræði, hagfræði eða einhverju slíku og hins vegar MA í því sem við köllum hagnýt hagvísindi. Þar er hægt að velja hagfræðibraut, Evrópufræði, stjórnsýslufræði, nýsköpun og frumkvöðlafræði og fleira. Það sem hefur slegið mest í gegn er ný leið sem við fórum af stað með í sumar í samvinnu við Reykjavíkurakademíuna og heitir Menningar- og menntastjórnun. Hún er fyrir fólk sem vill stjórna einhvers konar stofnunum sem miðla menningu á einn eða annan hátt. Sú braut fékk alveg ótrúlega góðar viðtökur og hálf menningarelíta þjóðarinnar sat hér á skólabekk í sumar. Það var alveg magnað."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×