Viðskipti innlent

Vísitalan búin að ná hámarki

"Það munar aðallega um hvað húsnæðisverð hefur verið að hækka mikið," segir Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbanka Íslands. Neysluvöruverðsvísitalan hækkaði um 0,77 prósent milli mánaða og hefur hækkað um 3,9 prósent síðastliðna tólf mánuði. "Það eru almennar hækkanir á mörgum liðum en þessi hækkun á húsnæðisverði er út úr kortinu," segir Edda Rós. Að sögn Eddu Rósar hefur verð á fasteignum hafa tekið mikinn kipp síðustu þrjá mánuði. Hækkunin nemur tæpum sex prósentum sem er 25 prósent hækkun á ársgrundvelli. Edda Rós segist þó gera ráð fyrir því að vísitalan sé búin að ná hámarki sínu í bili. "Í næsta mánuði kemur væntanlega inn einhver bensínlækkun og því ætti að draga úr hækkun vísitölunnar. Þrátt fyrir það eigum við von á að vísitalan verði jafnvel svona há næsta hálfa árið." Lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu á síðustu dögum kemur þó ekki inn í þessa nýjustu mælingu Hagstofunnar á neysluvöruverðsvísitölunni, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu. Haldi lækkunin áfram getur það dregið úr verðlagshækkun ársins að því er fram kemur í vefriti ráðuneytisins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×