Viðskipti innlent

Mikil hækkun íbúðaverðs

Íbúðaverð hefur hækkað um tæp sex prósent síðastliðna þrjá mánuði og má rekja hátt í helming verðbólgunnar til hækkunar húsnæðisverðs. Með sama áframhaldi og síðustu þrjá mánuðina myndi íbúðaverð hækka um 25 prósent á árs grundvelli, sem líklega er meiri hækkun en nokkru sinni fyrr. Í hálf fimm fréttum KB banka segir að húsnæðishækkunin skýri hátt í helming verðbólgunnar, sem orðin er, og að ef íbúðaverð og bensínverð hefði hækkað með eðlilegum hætti, væri verðbólgan ekki nema 1,2 %, en hún er komin upp í 3,9 % á tólf mánaða tímabili og upp í níu prósent, ef aðeins er litið til síðustu þriggja mánaða. Þrátt fyrir að mikið sé nú byggt af íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu spáir greiningardeild Landsbankans að íbúðaverð muni enn hækka þegar lánshlutfall húsnæðislána verður hækkað í 90 prósent. Greiningardeildir bankanna eru nú farnar að minnast á svonefnda eignabólu,af varfærni þó, en eignabóla er það þegar einhverskonar eignir hækka langt umfram raunvirði þar til einhverju hámarki er náð, og lækkun tekur við.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×