Fréttir

Fréttamynd

Salan batnar hjá Wal-Mart

Sala jókst umfram væntingar hjá bandarísku verslanakeðjunni Wal-Mart, einni stærstu stórmarkaðakeðju í heimi í mars. Innkaup á varningi tengdum páskunum eiga stóran hlut að máli. Stjórn verslanakeðjunnar segir hins vegar enn nokkuð í land að áætlanir fyrir yfirstandandi mánuð muni standast. Greinendur fylgjast grannt með Wal-Mart þessa dagana.

Viðskipti erlent
Fréttamynd

Lekandi orðinn að vandamáli í Bandaríkjunum

Læknar virðast hættir að geta læknað kynsjúkdóminn lekanda ef marka má nýjustu rannsóknir smitsjúkdómadeildar Bandaríkjanna. Tilfellum hefur fjölgað frá því að vera aðeins 1% smitaðir yfir í að verða 13% á aðeins síðustu fimm árum. Ástæðan er talin vera sú að læknar eru nú í auknum mæli farnir að láta fólk fá of sterkt pensillín við kvefi og öðrum slíkum kvillum. Af þeim sökum byggir líkaminn upp mótefni við pensillíninu og það hættir að virka. Yfirmaður smitsjúkdómadeildar Bandaríkjanna segir að nú þurfi að fara gefa enn sterkari lyf við kynsjúkdómum en áður til þess að lækna þá. Þess má geta að lekandi er ekki landlægur kynsjúkdómur hér á landi en nokkur tilvik koma alltaf upp á ári hverju.

Erlent
Fréttamynd

Mikil reiði meðal hjúkrunarfræðinga

Mikil reiði er meðal hjúkrunarfræðinga á Akureyri vegna nýrra upplýsinga um kjaramál. Tvöfalt fleiri norðlenskir hjúkrunarfræðingar eru á lægri taxta en á Landspítalanum án þess að menntun eða reynsla skýri þann mun. Um 30% hjúkrunarfólks fyrir norðan er á lægsta taxtanum samanborið við 14% starfsmanna Landspítalans.

Innlent
Fréttamynd

Sveiflar sprotanum í Háskólabíó í síðasta sinn

Vladimir Ashkenazy hefur sett svip sinn á íslensk menningarlíf um áratuga skeið. Frá árinu 2002 hefur hann verið heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands en þessi frábæri píanisti steig einmitt sín fyrstu skref sem stjórnandi með hljómsveitinni árið 1971. Annað kvöld stýrir hann sveitinni í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði en í kvöld sveiflar hann sprotanum í Háskólabíói, væntanlega í eitt af síðustu skiptunum, því nýtt tónlistarhús er handan við hornið. Á efnisskránni eru þrjú verk, þar á meðal hin dásamlega Fantastique-sinfónía Hectors Berlioz. Ashkenazy segist alltaf hafa jafn gaman af því að koma til Íslands og í hvert skipti sem hann kemur hefur sinfónían tekið enn meiri framförum. Nýlega fékk hann stjórnendastöðu við sinfóníuhljómsveitina í Sydney en þrátt fyrir það ætlar þessi fyrsti tengdasonur Íslands, eins og hann er stundum kallaður, ekki að gleyma okkur.

Innlent
Fréttamynd

Eldur kom upp í báti

Eldur kom upp í báti suðvestur af Ryti við Ísafjarðardjúp rétt um kvöldmataleitið í kvöld. Tveir menn voru í bátnum. Að sögn varðstjóra á Ísafirði náðu mennirnir að slökkva eldinn, en báturinn varð vélvana og þurfti því að kalla á hjálp. Sædísin frá Bolungavík kom á staðin og er báturinn væntanlegur til hafnar í Bolungavík um klukkan hálf tíu. Upptök eldsins eru ókunn.

Innlent
Fréttamynd

Enn og aftur sannast skaðsemi reykinga

Enginn sleppur við að verða fyrir skaða af sígarettureyk ef marka má nýja könnun sem framkvæmd var í Póllandi. Hefur nú komið í ljós að meira að segja þeir ungu og hraustu verða líka fyrir miklum skaða af sígarettureyk þar sem hjartað fær ekki að slaka á á milli slaga. En hingað til hefur því verið haldið fram að þeir ungu og hraustu þoli sígarettureyk einna best. Rannsóknin var gerð á 66 hraustum einstaklingum á aldrinum 20 til 40 ára. Helmingur þeirra hafði reykt 10-25 sígarettur á dag í 6-20 ár. Óreglulegir hjartslættir komu enn fram tveim tímum eftir að þeir luku við síðustu sígarettu.

Innlent
Fréttamynd

Kópavogsbær byggir að Elliðavatni

Meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hefur samþykkt skipulagsbreytingar á lóðum að vatnsbakka Elliðavatns. Á bæjarstjórnarfundi 10. apríl samþykkti meirihlutinn þ.e. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn, drög að nýrri byggð suðvestur af Elliðavatni. Samkvæmt nýju skipulagi mun vera um 15 metra bil á milli Elliðavatns og bygginga en um 50 metra helgunarsvæði liggur nú meðfram vatninu en það var samþykkt árið 2000. Með þessu móti mun byggðin teygja sig upp og í kringum Guðmundarlund og liggjað að landi Heiðmerkur.

Innlent
Fréttamynd

Ráðist á sjálft þinghúsið

Átta biðu bana og fjölmargir slösuðust þegar öflug sprengja var sprengd í þinghúsinu í Bagdad í dag. Árásin er reiðarslag fyrir íröksku stjórnina og þau ríki sem hernámu landið því hún er táknræn fyrir hversu ástandið þar er slæmt og hve máttlítil yfirvöld eru í baráttu sinni við uppreisnarmenn.

Erlent
Fréttamynd

Þjóðkirkjan er í allra þágu

Biskup hefur óskað eftir því við prestana í Digranessókn að þjóna þeim fermingarbörnum sem til þeirra leita. Prestur þar neitaði að ferma stúlku úr Fríkirkjusöfnuðinum nema móðir hennar gengi til liðs við Þjóðkirkjuna. Séra Jóna Hrönn Bolladóttir segir alla velkomna í sína kirkju.

Innlent
Fréttamynd

Kjúklingar komnir af risaeðlum

Vísindamenn hafa fundið fyrstu merki þess að risaeðlan Tyrannosaurus rex sé fjarskyldur frændi hænunnar. Eru þetta fyrstu handbæru merkin sem tengja risaeðlur og fugla saman, segir vísindamaður við Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Upplýsingar þessar fengust með því að rannsaka prótein úr beinmerg úr 68 milljón ára gömlu beini. Vísindamenn hafa löngum haldið því fram að fuglarnir eins og við þekkjum þá í dag séu komnir af risaeðlum og er þetta því mikið gleði efni en hingað til hefur ekki verið hægt að finna nýtanlegan beinmerg til þess að vinna úr.

Erlent
Fréttamynd

Mikill árangur á síðustu 16 árum

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir stundu að mikill árangur hefði náðst í efnahagsmálum á þeim sextán árum sem sjálfstæðismenn hefðu haft forystu í ríkisstjórn. Frelsi hefði verið innleitt á tíunda áratug síðustu aldar undir forystu flokksins og Ísland væri orðið það sem sjálfstæðismenn hefðu lofað - land tækifæranna.

Innlent
Fréttamynd

Úrvalsvísitalan í methæðum

Úrvalsvísitalan fór í methæðir við lokun markaða í dag þegar hún hækkaði um 0,2 prósent og endaði í 7.669 stigum. Þetta slær út met vísitölunnar í gær þegar hún lokaði í 7.611 stigum.

Viðskipti innlent
Fréttamynd

Actavis enn í baráttunni um Merck

Actavis staðfestir að fyrirtækið sé enn í baráttunni um yfirtöku á samheitalyfjahluta þýska lyfjafyrirtækisins Merck og séu viðræður enn í gangi. Erlendir fjölmiðlar hafa haldið því fram í dag að félagið hafi dregið sig út úr baráttunni ásamt bandaríska lyfjafyrirtækinu Mylan Laboratories. Þær fréttir eru ekki réttar, samkvæmt upplýsingum frá Actavis.

Viðskipti innlent
Fréttamynd

Óbreyttir stýrivextir á evrusvæðinu

Evrópski seðlabankinn ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum í 3,75 prósentum. Þetta er í takt við væntingar greinenda. Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri, sagði varaði hins vegar við því að bankinn muni að líkindum hækka vextina í júní.

Viðskipti erlent
Fréttamynd

Umhverfisvænar virkjanir í Þjórsá

Landsvirkjun heldur ótrauð áfram undirbúningi að virkjunum í neðri Þjórsá þrátt fyrir andstöðu meirihluta Sunnlendinga. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins segir virkjanirnar til fyrirmyndar í umhverfismálum.

Innlent
Fréttamynd

Íbúðalánasjóður lánaði 4,9 milljarða í mars

Útlán Íbúðalánasjóðs námu 4,9 milljörðum króna í síðasta mánuði. Þar af var tæpur hálfur milljarður vegna leiguíbúðalána, að því er fram kemur í mánaðarskýrslu sjóðsins sem kom út í gær. Meðalfjárhæð almennra lána nam tæpum 9,4 milljörðum króna. Útlán sjóðsins á fyrstu þremur mánuðum ársins námu 13,6 milljörðum króna sem er lítillega yfir áætlunum.

Viðskipti innlent
Fréttamynd

Biðin styttist í lækkun reikigjalda

Iðnnefnd ESB hefur lagt til tvenns konar þak á reikigjöld fyrir notkun farsíma erlendis. Eitt gjald verður fyrir hringingu úr farsímum og annað fyrir móttöku símtala erlendis. Nefndin gengur í tillögum sínum nokkuð lengra en framkvæmdastjórn ESB lagði til í fyrra en hún horfir til þess að lækka reikigjöldin um allt að 70 prósent. Kosið verður um málið á Evrópuþinginu í næsta mánuði.

Viðskipti erlent
Fréttamynd

TM Software selur Maritech

TM Software hefur gengið frá samningi um sölu á öllum hlutabréfum í hugbúnaðarfyrirtækinu Maritech International til AKVA Group ASA í Noregi. AKVA Group keypti í desember í fyrra sjávarútvegshluta Maritech. Stjórnendur TM Software töldu hagsmunum viðskiptavina best borgið með því að selja Maritech í heilu lagi.

Viðskipti innlent
Fréttamynd

Nasdaq sagt hafa boðið í OMX

Gengi hlutabréfa í norrænu kauphallarsamstæðunni OMX hækkaði um heil 13 prósent við opnun markaða í morgun eftir að sænska dagblaðið Dagens Industri sagði að bandaríski hlutabréfamarkaðuinn Nasdaq hefði lagt fram yfirtökutilboð í norrænu kauphöllina fyrir hálfum mánuði. OMX segir svo ekki vera.

Viðskipti erlent
Fréttamynd

Spá lækkunum á bandarískum fasteignamarkaði

Nokkrar líkur eru á að húsnæðisverð muni lækka á þessu ári í Bandaríkjunum. Verði það raunin er þetta í fyrsta sinn sem slíkt gerist að ráði í 38 ár, samkvæmt Landssamtökum verktaka í Bandaríkjunum. Helsta ástæðan fyrir lækkununum er samdráttur í fasteignakaupum og á fasteignalánamarkaði vestra.

Viðskipti erlent
Fréttamynd

Brasilísk flugmálayfirvöld telja flug vera öruggt

Flugmálayfirvöld í Brasilíu telja flug á þeirra yfirráðasvæði vera örugg, þrátt fyrir að flugturnar þeirra séu undirmannaðir og að þangað vanti nýrri tæki. Nú þegar hafa flugumferðastjórar farið einu sinni í verkfall og þeir hóta að gera það aftur en ekkert breytist.

Erlent
Fréttamynd

Bókin Delicious Iceland hlýtur heiðursverðlaun

Bókin Delicious Iceland eftir þá Völund Snæ Völundarson matreiðslumann og Hrein Hreinsson ljósmyndara hlut um helgina sérstök heiðursverðlaun, The Gourmand Cookbook Awards, en það eru ein virtustu verðlaun heims í matar- og vínbókmenntum. Forsvarsmenn keppninnar föluðust sérstaklega eftir þátttöku bókarinnar þegar hún var kynnt á alþjólegu bókasýningunni í Frankfurt í fyrra.

Innlent
Fréttamynd

Fílsunginn trekkir að

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína í dýragarðinn í Hamborg í Þýskalandi undanfarinn sólarhring til að berja augum lítinn fílskálf sem kom þar í heiminn í gær. Litli fíllinn er reyndar ekkert mjög lítill því fæðingarþyngd hans var 86 kíló og stærðin yfir herðakambinn 96 sentimetrar.

Erlent
Fréttamynd

Sólgos talin hafa áhrif á loftslagsbreytingar

Æ fleiri vísindamenn eru að komast á þá skoðun að samspil sólgosa og geimryks hafi talsvert að segja um loftslagsbreytingar á jörðinni. Þeir telja að fylgni sé á milli hlýnunar jarðar og mikilla sólgosa undanfarna áratugi.

Erlent
Fréttamynd

Samtök tengd al-Kaída lýsa yfir ábyrgð

Samtök sem kenna sig við al-Kaída segjast bera ábyrgð á sprengjuárásum sem gerðar voru Algeirsborg í Alsír í dag. Þrjátíu létu lífið í tilræðunum, sem meðal annars var beint gegn forsætisráðherra landsins.

Erlent
Fréttamynd

Níu ára stelpa bitin af hundi

Níu ára stúlka var bitin af hundi í Reykjavík í gær. Stúlkan var flutt á slysadeild en sauma þurfti átta spor í framhandlegg hennar. Stúlkan er vön að umgangast hunda en sá sem beit hana er henni alls óviðkomandi. Ekki er ljóst að svo stöddu hvað verður um hundinn.

Innlent
Fréttamynd

Neitaði að ferma stúlku úr Fríkirkjunni

Unglingsstúlku var í haust meinað að fermast í Digranessókn vegna þess að móðir hennar er í Fríkirkjunni. Móður stúlkunnar var tilkynnt að ef hún gengi úr Fríkirkjunni fengið barnið að fermast, annars ekki. Presturinn, séra Magnús Björnsson, býður Fríkirkjuprestinum, Hirti Magna Jóhannssyni, í kaffi til að semja um þessi mál.

Skoðun
Fréttamynd

Íslenska hagkerfið er í ójafnvægi

Íslenska hagkerfið er í miklu ójafnvægi um þessar mundir og viðskiptahallinn aldrei verið meiri, segir í nýju riti Samfylkingarinnar um efnahagsmál sem starfshópur undir stjórn Jóns Sigurðssonar, fyrrum ráðherra og seðlabankastjóra, vann að. Einnig segir að hætta sé á að Ísland missi allan trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eins og hafi sannast í mars sl. þegar matsfyrirtækið Fitch Ratings lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í innlendri og erlendri mynt.

Innlent
Fréttamynd

Fjárfestar hættir við yfirtöku á Sainsbury

Fjárfestahóparnir CVC Capital, Blackstone Group og TPG Capital, áður Texas Pacific Group, sendu frá sér sameiginlega tilkynningu fyrir stundu þar sem fram kemur að þeir hafi hætt við að gera yfirtökutilboð í breska stórmarkaðinn Sainsbury. Ekkert verður því úr stærstu fyrirtækjakaupum í Bretlandi.

Viðskipti erlent