Skoðun

Styðjum þá sem bjarga okkur

Jens Garðar Helgason skrifar

Ríkisstjórnin, og þá sérstaklega Viðreisn sem fer með dómsmálaráðuneytið, hefur lagt mikla áherslu á að fjölga lögreglumönnum um fimmtíu strax á þessu ári. Þó að það sé vissulega skref í rétta átt fyrir öryggi borgaranna, þá er ljóst að þetta er ekki nægjanlegt ef á sama tíma er hætt við inntökupróf í sérsveit ríkislögreglustjóra vegna fjárskorts, sem er raunin.

Við blasir skýrt öryggisvandamál. Sérsveit ríkislögreglustjóra er sú eining sem við treystum á þegar hættulegustu og viðkvæmustu verkefnin koma upp – vopnuð útköll, stórslys, hryðjuverkaógnir og aðrir alvarlegir atburðir. Á sama tíma og verkefnin hafa margfaldast á síðustu árum eru aðeins 47 manns starfandi í sveitinni í dag – níu færri en þörf er á.

Árið 2023 sinnti sérsveitin 461 útkalli. Frá 2013 til 2023 hafa þau verið rúmlega tvö þúsund. Þetta eru staðreyndir sem ættu að hringja öllum viðvörunarbjöllum. Það er einfaldlega ekki í lagi að fimmtíu lögreglumenn sem hafa varið heilum vetri í undirbúning fyrir inntökupróf þurfi nú að bíða heilan vetur til viðbótar vegna þess að fjármagnið vantar.

Þegar að ríkisstjórnin samþykkti aðgerðir um fjölgun lögreglumanna var m.a. sagt í tilkynningu hennar að vopnaburður almennings hefur aukist og þar er engu logið. En hver er kölluð út þegar um vopnaburð er að ræða? Það er einmitt undirmönnuð sérsveitin.

Það stenst ekki að tala fyrir auknu öryggi og styrkingu löggæslu einn daginn og draga síðan úr einni burðarstoð hennar þann næsta. Ef við viljum raunverulega efla öryggismál landsins, þá þarf það að gerast víðar en í blaðaútspilum. Sérsveitin þarf að vera vel mönnuð, vel búin og vel undirbúin. Öryggi borgaranna krefst þess.

Ég skora á dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra að stíga inn í málið og tryggja að inntökuprófið fari fram í sumar. Það er ekki forsvaranlegt að láta fjárskort stöðva eðlilega uppbyggingu öryggiskerfisins.

Höfundur er varaformaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×