Skoðun

Ilmurinn af jarð­olíu er svo lokkandi

Sævar Helgi Lárusson skrifar

Verið er að klæða veginn, sjáið verktakann

Bráðið bikið bindur steina, blikkljós vara við

Blikkljós vara við, blikkljós vara við

Bráðið bikið bindur steina, blikkljós vara við

Nú eru vorverkin fram undan og verktakar landsins að gera malbikunar- og klæðingarvélarnar tilbúnar fyrir komandi vertíð. Fljótlega leggst ilmur bikblöndunnar yfir láð og lög og margir vegfarendur gleðjast, enda löngu tímabært að vegirnir fái andlitslyftingu. En ekki allir kunna að meta þennan vorboða, sumum finnst lyktin þrúgandi og ónæði af framkvæmdunum.

Lyktin sem fyllir loftið þegar malbik er lagt kemur frá jarðolíuafleiðunni jarðbiki (e. bitumen). Hún minnir á bensín, dísel eða jafnvel hráolíu. Sumir finna líka smá sæta undirtóna í lyktinni, sérstaklega þegar nýlögð malbiksgufan blandast við rigningu eða raka.

Það er engin tilviljun að hraðatakmarkanir og aðrar varúðarráðstafanir séu gerðar þar sem framkvæmdir eru í gangi. Vinna við að viðhalda vegum landsins er gefandi en hættulegt starf og mikilvægt að þeir sem um framkvæmdasvæði aka virði líf og limi þeirra sem þar starfa. Höfundur biðlar til ökumanna að virða takmarkanir sem settar eru á framkvæmdasvæðum og lækka hraðann til að auka öryggi, bæði starfsmanna og vegfarenda. Ástæður takmarkanna sem settar eru á ökumenn á framkvæmdarsvæðum eru af ýmsum ástæðum. M.a. getur veggrip verið skert, óvarðir starfsmenn að störfum nálægt umferðinni og líkur á steinkasti er fyrir hendi þar sem verið er að laga eða leggja klæðingu, en klæðing er þunn yfirborðsmeðferð þar sem biki (bindiefnið) er sprautað yfir veginn og steinefni er dreift strax yfir, á meðan malbik er þykkari, samfelld blanda af steinefnum og bindiefni sem er forblönduð í malbikunarstöð. Minni hraði minnkar líkur á að steinkast valdi tjóni. Tjón vegna steinkasts er talsvert á hverju ári og nóg borgum við í tryggingar, svo mikið er víst.

Gunnar tekur ekki eftir, geysist hratt yfir

Því ilmurinn af jarðolíu er svo lokkandi

Er svo lokkandi, er svo lokkandi

ilmurinn af jarðolíu er svo lokkandi

Það er hetjudáð að vera með athyglina á akstrinum en fífldirfska að hafa hana á símanum. Sýnum sjálfum okkur og öðrum tillitssemi og hægjum á bílnum þar sem þess er þörf, öryggisins vegna. Komum heil heim.

Höfundur er öryggisstjóri Vegagerðarinnar.




Skoðun

Skoðun

Konur og menntun

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,Steinunn Bragadóttir skrifar

Sjá meira


×