Viðskipti innlent

Um þrjá­tíu prósent hafa miklar á­hyggjur af á­hrifum tolla á Ís­land

Kjartan Kjartansson skrifar
Tollar Bandaríkjastjórnar gætu hafa ófyrirsjáanleg áhrif á lífskjör á Íslandi.
Tollar Bandaríkjastjórnar gætu hafa ófyrirsjáanleg áhrif á lífskjör á Íslandi. Vísir/Vilhelm

Innan við þriðjungur svarenda í skoðanakönnun hefur miklar áhyggjur af því að tollar Bandaríkjastjórnar hafi neikvæð áhrif á lífskjör á Íslandi. Svipað hlutfall hefur litlar eða engar áhyggjur af tollunum.

Tíu prósent innflutningstollar á íslenskar vörur sem eru fluttar til Bandaríkjanna áttu að taka gildi fyrr í þessum mánuði en var frestað til þriggja mánaða. Bandaríkjastjórn hefur boðað enn hærri tolla á mörg ríki, sérstaklega á Kína.

Spurt er um áhrif tollanna almennt, ekki aðeins þá sem á að leggja á íslenskar vörur, í skoðanakönnun Maskínu sem var gerð um miðjan mánuðinn. Rétt tæp þrjátíu prósent sögðust hafa miklar áhyggjur af því að tollarnir rýrðu lífskjör hér á landi, þar af sjö prósent mjög miklar áhyggjur.

Hátt í þriðjungur sagðist þó hafa litlar eða engar áhyggjur af áhrifum tollanna. Um fimmtungur sagðist hafa fremur litar áhyggjur, 6,6 prósent mjög litlar en 3,8 prósent engar áhyggjur. Tæp 38 prósent höfðu áhyggjur „í meðallagi“.

Nokkur munur var á afstöðu svarenda eftir því hvaða stjórnmálaflokk þeir studdu. Þannig höfðu kjósendur Pírata og hæst hlutfall þeirra sem sögðust hafa miklar áhyggjur af tollunum: 16,8 prósent pírata og 12,9 prósent sósíalista.

Kjósendur Miðflokksins, sem stendur mögulega næst bandaríska Repúblikanaflokknum af þeim sem spurt var um í könnuninni, anda rólegastir yfir tollunum. Heill fjórðungur þeirra sagðist mjög litlar eða engar áhyggjur hafa af áhrifum tollanna á Ísland og yfir helmingur litlar eða engar áhyggjur. Aðeins um fjórtán prósent kjósenda flokksins sögðust hafa miklar áhyggjur af tollunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×