Upp­gjörið: Tinda­stóll - Stjarnan 1-2 | Ó­trú­leg endur­koma Garðbæinga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andrea Mist Pálsdóttir og stöllur hennar í Stjörnunni sóttu sigur á Sauðárkrók. Andrea var heppin að fá ekki rautt spjald snemma leiks.
Andrea Mist Pálsdóttir og stöllur hennar í Stjörnunni sóttu sigur á Sauðárkrók. Andrea var heppin að fá ekki rautt spjald snemma leiks. vísir/diego

Þrátt fyrir að vera marki undir þegar mínúta var til leiksloka vann Stjarnan 1-2 sigur á Tindastóli í Bestu deild kvenna í dag. Stjörnukonur fengu þar með sín fyrstu stig í sumar.

Stjarnan hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni með markatölunni 3-12 og allt stefni í þriðja tapið. En Garðbæingar sýndu mikinn styrk á lokamínútunum. Jana Sól Valdimarsdóttir jafnaði á 89. mínútu og þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Jessica Ayers sigurmark gestanna.

Makala Woods hafði komið Stólunum yfir undir lok fyrri hálfleiks og allt þar til í blálok leiksins vörðu heimakonur forskotið nokkuð þægilega. En undir lokin hrundi leikur þeirra og þær töpuðu annarri viðureigninni í deildinni í röð. 

Stólarnir byrjuðu leikinn betur án þess þó að skapa sér teljandi færi. Hrafnhildur Salka Pálmadóttir skoraði reyndar á 6. mínútu en markið var dæmt af.

Tveimur mínútum áður hafði Andrea Mist Pálsdóttir sloppið vel þegar hún sparkaði á eftir Hrafnhildi Sölku eftir að hún braut á henni. Guðmundur Páll Friðbertsson lét gula spjaldið duga en hefði hæglega getað rekið Andreu af velli.

Eftir slæm úrslit í fyrstu tveimur umferðunum var kannski skiljanlegt að það væri smá skjálfti í Stjörnukonum til að byrja með. En þær hristu hann af sér og tóku völdin eftir því sem líða tók á fyrri hálfleikinn.

Gestirnir komust næst því að skora eftir hornspyrnu á 37. mínútu. Fyrst átti Arna Dís Arnþórsdóttir skot sem var bjargað á línu og svo skaut fyrirliðinn Anna María Baldursdóttir framhjá.

En þvert gegn gangi leiksins náði Tindastóll forystunni á 42. mínútu. Stólarnir geystust þá í skyndisókn, Elísa Bríet Björnsdóttir fann Woods sem sneri tvisvar á Önnu Maríu og skoraði svo með vinstri fótar skoti framhjá Veru Varis í marki Stjörnunnar.

Framan af seinni hálfleik og raunar allt þar til á 89. mínútu benti ekkert til þess að Stjörnukonur myndu jafna. Raunar voru Stólarnir líklegri til að bæta við mörkum með hina stórhættulegu Woods í broddi fylkingar.

En skiptingar Jóhannesar Karls Sigursteinssonar, þjálfara Stjörnunnar, báru ríkulegan ávöxt. Þegar mínúta var til leiksloka sendi Birna Jóhannsdóttir boltann inn fyrir vörn Tindastóls á annan varamann, Jönu Sól, sem kláraði færið vel.

Markið gaf Stjörnukonum byr undir báða vængi og þær vildu meira. Genevieve Crenshaw varði frá varamanninum Gyðu Kristínu Gunnarsdóttur þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. 

Tveimur mínútum síðar sendi Gyða boltann svo fyrir frá hægri, varnarmenn Tindastóls náðu ekki að hreinsa og Jessica skoraði með skoti af stuttu færi og tryggði Stjörnunni stigin þrjú.

Atvik leiksins

Ekkert benti til þess að Stjarnan myndi koma til baka þegar Birna átti snilldarsendingu inn fyrir vörn Tindastóls á Jönu Sól sem skoraði. Stjörnukonur efldust við markið, héldu áfram að sækja og skoruðu svo sigurmarkið skömmu síðar.

Stjörnur og skúrkar

Eftir afar slaka frammistöðu í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins átti Vera góðan leik í marki Stjörnunnar í dag og var örugg í sínum aðgerðum. Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir átti ágætis spretti en síðan voru það varamennirnir Fanney Lísa Jóhannsdóttir, Birna, Jana Sól og Gyða sem breyttu leiknum. 

Woods skoraði og var gríðarlega ógnandi í framlínu Stólanna. Hún naut góðrar aðstoðar hinnar gríðarlega efnilegu Elísu sem var mjög lífleg.

Dómarinn

Guðmundur Páll dæmdi ágætlega en hefði líklega átt að reka Andreu Mist af velli í byrjun leiks.

Stemmning og umgjörð

Ágætis stemmning var meðal þeirra áhorfenda sem mættu á Sauðárkróksvöll í dag og þeir sáu skemmtilegan leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira