Upp­gjörið: Valur - Þór/KA 3-0| Valur kláraði dæmið í síðari hálf­leik

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir átti góðan leik í dag.
Fanndís Friðriksdóttir átti góðan leik í dag. Vísir/Anton Brink

Valur tók á móti toppliði Þór/KA á N1 vellinum á Hlíðarenda í dag þegar þriðja umferð Bestu deild kvenna hóf göngu sína. Leikurinn fór rólega af stað en Valur gekk frá þessu í síðari hálfleik og hafði betur með þremur mörkum gegn engu.

Leikurinn fór fremur hægt af stað. Bæði lið þreifuðu fyrir sér og reyndu að finna einhverjar opnanir en án árangurs. Það var hart barist á miðjunni og lítið um færi í upphafi.

Besta færi fyrri hálfleiks leit dagsins ljós á 36. mínútu leiksins en þá átti Fanndís Friðriksdóttir flotta fyrirgjöf fyrir markið þar sem Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir var mætt en náði ekki að koma boltanum framhjá Jessica Grace Berlin í marki Þór/KA.

Bæði lið fengu einhver hálffæri og tækifæri en náðu ekki að gera sér mat úr því og liðin fóru því markalaus inn í hálfleikinn.

Seinni hálfleikurinn byrjaði frá því sem frá var horfið í fyrri. Það var heldur rólegt fyrst um sinn og lítið um færi.

Það dró þó til tíðinda á 60. mínútu leiksins þegar Fanndís Friðriksdóttir reyndi fyrirgjöf fyrir markið en boltinn fór í hendina á Bríet Jóhannsdóttur og Þórður Þorsteinn dómari bendir á punktinn. Jordyn Rhodes steig á punktinn og sendi markvörð Þór/KA í vitlaust horn og kom Val yfir.

Valur bætti við öðru marki á 70. mínútu leiksins en þá var Fanndís Friðriksdóttir aftur á ferðinni upp hægri vænginn og átti fyrirgjöf fyrir markið ætlaða Jasmín Erlu Ingadóttur sem náði smá snertingu en Kolfinna Eik Elínardóttir stýrði boltanum í eigið net.

Fanndís Friðriksdóttir fullkomnaði svo frábæran leik sinn með því að skora þriðja mark leiksins á 87. mínútu. Gott skot sem Jessica Grace Berlin réð ekki við á nærstöng og þannig urðu lokatölur leiksins. Valur hafði betur með þremur mörkum gegn engu.

Atvik leiksins

Leikurinn var mjög lokaður fram að fyrsta markinu svo það er auðvelt að nefna fyrsta markið. Leiknum sárvantaði þetta mark til að losa aðeins um.

Stjörnur og skúrkar

Fanndís Friðriksdóttir var hættulegust í liði Vals í dag. Ásamt því að skora þá átti hún stóran þátt í hinum mörkum Vals í dag. Ef það var eitthvað sem gerðist fram á við hjá Val þá átti Fanndís einhvern þátt í því.

Dómararnir

Þórður Þorsteinn Þórðarson hélt utan um flautuna í dag og honum til aðstoðar voru Guðni Freyr Ingvason og Jovan Subic. Fjórði dómari var Guðfinnur Gústaf Guðfinnsson.

Það reyndi ekkert á teymið í dag og komst það nokkuð þægilega í gegnum þennan leik. Gárungarnir myndu jafnvel segja ‘solid sjöa’.

Stemingin og umgjörð

Fullt kredit á þá sem mættu á völlin í dag. Það hefði verið skemmtilegra að sjá fleiri á vellinum í dag en það er mikið um að vera í Íslensku íþróttalífi þessa dagana. Sjoppan var opin og þar var hægt að finna eitthvað fyrir alla.

Viðtöl

Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

„Hún átti alveg svakalegan kafla í þessum leik“

„Varnarleikurinn virkaði nokkurn veginn eins og við vildum hafa það. Það var lykillinn að því að við vorum inni í leiknum eftir sextíu mínútur “ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Vals eftir sigurinn í kvöld.

„Fyrri hálfleikurinn er allt í lagi en það hefði vantað aðeins meiri orku í að klára færin og klára sóknirnar betur. Við lifðum af fyrstu fimmtán mínúturnar í seinni hálfleik og það er stundum bara þannig að þú þarft að spila vörn og finna svolítið vel fyrir því en um leið og við náðum þessu marki þá leið okkur miklu betur“

Það mátti sjá hversu létt Valsliðinu var við það að ná inn fyrsta markinu og það var eins og einhverju fargi væri létt af þeim.

„Við getum sagt það að það hafi orðið ákveðin breyting þarna á 60. mín. Við spiluðum vörnina eins og við vildum fá og fengum líka þau færi, upphlaup sem við vildum fá að vera með boltann við hliðina á vítateignum og finna glufurnar sem að myndast inni í varnarlínu Þór/KA“

Fanndís Friðriksdóttir átti flottan leik í dag og steig upp fyrir sínu liði þegar þess þurfti. Hún átti þátt í öllum mörkum Vals í dag.

„Það er alltaf þannig að svona lykilleikmenn sem geta búið eitthvað til og hafa sjálfstraust til þess að skora úr hvaða færum sem er að það er alveg gríðarlega mikilvægt og hún átti alveg svakalegan kafla í þessum leik“

Jóhann Kristinnvísir/Hulda Margrét

„Algjör óþarfi hjá okkur að vera hjálpa þeim svona mikið“

„Þetta eru mjög svekkjandi úrslit“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þór/KA eftir tapið í dag.

„Við vorum að reyna að vera hugaðar og fórum hátt með línuna. Þær sluppu inn á bakvið. Þær eru með frábært skyndisóknarlið og gerðu þetta hrikalega vel og geta refsað svona“

„Við tókum alveg áhættu, þetta var ekki góður fótboltaleikur eins og fólk sá. Fótboltinn sem slíkur, þetta var meiri barátta, stöðubarátta og einstaklingsbarátta. Síðasta hálftíman þá nærðust Valsstelpurnar á því að vera á heimavellinum sínum og sleppa inn á bakvið okkur þegar við reyndum að þrýsta aðeins hærra “

„Það lagaðist ekki fyrir mig eða okkar lið sérstaklega eftir að við lendum undir. Þá komust þær inn á bakvið í sínum skyndisóknum og og voru mjög hættulegar. Það er algjör óþarfi fyrir okkur að vera hjálpa þeim svona mikið við þetta. Við gáfum boltann klaufalega frá okkur og svo held ég að við höfum skorað megnið af mörkunum fyrir þær líka“ sagði Jóhann Kristinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira