Erlent

Hamas hafnar til­lögu Ísrael um vopna­hlé

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Tjöld flóttamanna á Gasa voru ónýt eftir nýjustu árás Ísraelshers þar sem 37 létust.
Tjöld flóttamanna á Gasa voru ónýt eftir nýjustu árás Ísraelshers þar sem 37 létust. AP

Hamas hefur hafnað nýjustu tillögu Ísrael um vopnahlé. Forsvarsmenn Hamas segjast þó tilbúnir að ræða annan samning sem feli í sér endalok stríðsins og frelsi allra gísla í þeirra haldi gegn því að palestínskum föngum verði sleppt. 37, flestir óbreyttir borgarar, létust í  árásum Ísraelshers á tjaldbúðir.

Í vopnahléstillögu Ísraela fólst 45 daga vopnahlé gegn því að tíu ísraelskir gíslar í haldi Hamas yrðu látnir lausir. Hamas féllst ekki á þessa tillögu og sögðust „tilbúin til að semja tafarlaust um samning um að skipta á öllum gíslum við umsaminn fjölda Palestínumanna sem Ísraelar halda föngum.“

Khalil al-Hayya, samningamaður Hamas, segir ríkisstjórn Ísrael nota samningana, sem eru ekki tilbúnir samningar heldur einungis hluti þeirra, til að fela hver raunveruleg stefnumál stjórnarinnar eru, að halda áfram að útrýma og svelta íbúa Palestínu. Með þessu sé ríkisstjórnin einnig að fórna öllum ísraelskum gíslum í haldi Hamas.

Talið er að 59 ísraelskir gíslar séu í haldi Hamas og að 24 þeirra séu á lífi.

Ísraelar hafa áður sagt að yfirlýst markmið þeirra sé algjör afvopnun og eyðilegging Hamas samtakanna. Þeir hafa fyrirskipað íbúum á ákveðnum svæðum á Gasaströndinni að yfirgefa heimili sín. 

Margir óbreyttir borgarar á Gasaströndinni hafa látist í átökunum en í nýjustu árás Ísraela létust 37 manns. Árásin var gerð á tjaldbúðir óbreyttar borgara. Ísraelsher sagði að „Hamas hryðjuverkamaður“ hefði verið á svæðinu. Mikill fjöldi látinna eru börn.

„Eldurinn var of mikill, hann gjöreyddi tjöldin og fólkið inni í þeim. Við vorum hjálparlaus, við gátum ekki gert neitt til að bjarga þeim,“ sagði sjónarvottur í viðtali á BBC.

Samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Hamas hafa að minnsta kosti 51.065 palestínskir einstaklingar látist í átökunum á milli Ísrael og Hamas. Átökin hafa staðið frá 7. október 2023 þegar Hamas gerði árás á tónlistarhátíð í Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×