Upp­gjörið: Njarð­vík - Kefla­vík 95-80 | Yfir­burðir í fráköstum og Njarð­víkingar leiða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brittany Dinkins var með þrefalda tvennu í leiknum; 25 stig, sautján fráköst og tíu stoðsendingar.
Brittany Dinkins var með þrefalda tvennu í leiknum; 25 stig, sautján fráköst og tíu stoðsendingar. vísir/ernir

Njarðvík tók forystuna í einvíginu gegn Keflavík í undanúrslitum Bónus deildar kvenna í körfubolta með fimmtán stiga sigri, 95-80, í fyrsta leik liðanna í IceMar-höllinni í Njarðvík í dag.

Leikurinn var jafnari en lokatölurnar gefa til kynna. Njarðvíkingar lokuðu hins vegar vörninni í 4. leikhluta og unnu hann með ellefu stigum, 29-18.

Njarðvík hafði mikla yfirburði inni í teig og vann frákastabaráttuna, 55-34. Emilie Hessedal tók 21 frákast auk þess að skora átján stig. Paulina Hersler skoraði 32 stig og tók átta fráköst og Brittany Dinkins skilaði þrefaldri tvennu; 25 stigum, sautján fráköstum og tíu stoðsendingum.

Jasmine Dickey var mögnuð í liði Keflavíkur og skoraði 41 stig og tók fjórtán fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði fimmtán stig en aðrar gerðu lítið í sókninni.

Keflavík skoraði fyrstu tvö stig leiksins en Njarðvík svaraði með tíu stigum í röð. Eftir þetta komst leikurinn í jafnvægi og heimakonur voru með fimm stiga forskot eftir 1. leikhluta, 20-15.

Gestirnir mættu öflugir til leiks í 2. leikhluta. Þeir skoruðu tíu stig í röð og komust í 24-28 þegar leikhlutinn var hálfnaður. Jasmine var öflug og pressuvörn Keflvíkinga gerði Njarðvíkingum erfitt fyrir.

En Njarðvík stóð af sér storminn og fór svo á mikið flug. Krista Gló Magnúsdóttir skoraði þrjár þriggja stiga körfur á skömmum tíma og Njarðvík vann seinni hluta 2. leikhluta, 16-4, og var með átta stiga forskot í hálfleik, 40-32.

Njarðvíkingar jörðuðu Keflvíkinga í frákastabaráttunni. Emilie tók til að mynda þrettán fráköst í fyrri hálfleik en allt Keflavíkurliðið sautján samtals. Gestirnir töpuðu boltanum aðeins þrisvar í fyrri hálfleik og skoruðu fimmtán stig eftir hraðaupphlaup gegn tveimur en hittu illa (33 prósent).

Þriðji leikhlutinn var frábær skemmtun þar sem liðin skiptust á höggum. Jasmine fór mikinn í liði Keflavíkur og skoraði fimmtán stig. Hjá Njarðvík bar mest á Paulinu sem var þrettán stig í leikhlutanum.

Njarðvíkingar voru áfram sterkari inni í teig en Keflvíkingar hittu vel fyrir utan í 3. leikhluta.

Njarðvík var fjórum stigum yfir fyrir 4. leikhluta og skoraði svo fyrstu sex stig hans og náði tíu stiga forskoti, 72-62.

Eftir þetta var á brattann að sækja fyrir Keflavík. Vörn Njarðvíkur var öflug og náði að hægja aðeins á Jasmine sem fékk litla hjálp.

Njarðvíkingar voru alltaf með undirtökin í 4. leikhluta og lönduðu á endanum öruggum sigri, 95-80. Liðsheild Njarðvíkur var sterkari; þær hittu betur og gáfu 27 stoðsendingar gegn aðeins fimmtán hjá Keflavík. Liðin skoruðu jafn mikið inni í teig (34 stig) en Njarðvíkingar rústuðu frákastabaráttunni eins og áður sagði.

Atvik leiksins

Emilie tók af allan vafa hvort liðið myndi vinna leikinn þegar hún setti niður þrist, sinn eina í leiknum, þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Hún kom Njarðvíkingum þá tíu stigum yfir, 82-72, og það bil var of breitt fyrir Keflvíkinga.

Stjörnur og skúrkar

Njarðvíkingar leituðu mikið til Paulinu sem skoraði 32 stig, nýtti ellefu af tuttugu skotum sínum og skoraði tíu stig af vítalínunni. Emilie var frábær með átján stig, 21 frákast, þrjár stoðsendingar og þrjú varin skot. Brittany hitti ekkert sérstaklega vel (38 prósent) en skilaði samt myndarlegri þrefaldri tvennu. Þá setti Krista Gló niður fjóra þrista úr fjórum tilraunum og Hulda María Agnarsdóttir gaf sjö stoðsendingar.

Jasmine var algjörlega mergjuð hjá Keflavík og hélt liðinu inni í leiknum á löngum köflum. Sara átti ágætan leik en það átti Thelma Dís Ágústsdóttir alls ekki. Hún skoraði aðeins fjögur stig, öll undir lokin, og tók einungis sex skot í leiknum. Keflvíkingar verða að fá meira frá landsliðskonunni sinni.

Dómarar

Bjarki Þór Davíðsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Stefán Kristinsson dæmdu leikinn og fórst það ágætlega úr hendi. Keflvíkingar voru þó sínu ósáttari en þeir fengu helmingi fleiri villur en Njarðvíkingar í leiknum.

Stemmning og umgjörð

Mætingin var með ágætasta móti, sérstaklega miðað við páskahelgi, og sér í lagi Njarðvíkurmegin.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira