Körfubolti

Luka fyrstur til að skáka Steph og LeBron í meira en ára­tug

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luka er vinsæll.
Luka er vinsæll. Joshua Gateley/Getty Images

Luka Dončić hefur stolið öllum fyrirsögnunum síðan hin ótrúlegu félagaskipti hans frá Dallas Mavericks til Los Angeles Lakers áttu sér stað. Skiptunum fylgdi gríðarleg treyjusala sem gerði það að verkum að treyja með Dončić og 77 á bakinu er nú sú vinsælasta í NBA.

Það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur með það að Los Angeles Lakers er stærra lið en Dallas Mavericks. Vistaskipti Luka staðfesta það endanlega þar sem hann er sá fyrsti síðan 2012-13 tímabilið sem skákar LeBron James og Stephen Curry þegar kemur að treyjusölu i NBA-deildinni í körfubolta.

Í meira en áratug hefur annar af ellismellunum tveimur alltaf átt þá treyju sem selst best í NBA-deildinni. Nú er öldin önnur. Luka er mættur í Lakers og hefur treyja með nafni hans selst eins og heitar lummur. Það ásamt þeim Mavericks treyjum sem þegar höfðu verið keyptar gerir nafn hans að því vinsælasta í deildinni.

Listann yfir fimmtán vinsælustu nöfn deildarinnar þegar kemur að því að merkja treyjur má sjá hér að ofan en þar er margt áhugavert. Til að mynda eru meistarar Boston Celtics og Phoenix Suns einu liðin sem eiga tvo leikmenn á topp 15 listanum. Jalen Brunson er vinsælli en Victor Wembanyama og Ja Morant er vinsælli en Nikola Jokić.

Umspilið fyrir úrslitakeppni NBA-deildarinnar hefst í kvöld. Leikur Orlando Magic og Atlanta Hawks hefst klukkan 23.30. Leikur Golden State Warriors og Memphis Grizzlies hefst klukkan 02.00. Báðir eru sýndir beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×