Upp­gjörið: Álfta­nes - Njarð­vík 107-96 | Undanúrslitin í aug­sýn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
David Okeke var öflugur í liði heimamanna í kvöld.
David Okeke var öflugur í liði heimamanna í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Álftanes vann virkilega sterkan ellefu stiga sigur er liðið tók á móti Njarðvík í annarri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Bónus-deildar karla í körfubolta í kvöld, 107-96. Álftanes leiðir því einvígið 2-0.

Það var áþreifanleg eftirvænting í Kaldalónshöllinni á Álftanesi þegar heimamenn tóku á móti Njarðvík í annarri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Bónus-deildar karla í körfubolta í kvöld.

Framan af 1. leikhluta var jafnt á öllum tölum, en fljótlega mátti þó sjá vísi af því að heimamenn væru tilbúnari í leikinn. Álftnesingar, með Justin James, Hauk Helga Pálsson og David Okeke í fararbroddi, leiddu í nánast öllum tölfræðiþáttum leiksins lengi vel og náðu mest níu stiga forskoti í 1. leikhluta.

Örlítið hægðist á stigaskori í 2. leikhluta, en áfram höfðu heimamenn yfirhöndina. Njarðvíkingar virtust hægari en heimamenn í öllum sínum aðgerðum og Álftnesingar náðu fljótt tíu stiga forskoti í fyrsta skipti í leiknum. Mest náði Álftanes 14 stiga forskoti í fyrri hálfleik, en gestirnir löguðu stöðuna lítillega fyrir hlé, staðan 52-41 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Heimamenn buðu svo upp á meira af því sama í upphafi síðari hálfleiks. Augnablikið var klárlega með þeim og um miðbik 3. leikhluta kom Justin James liðinu í 20 stiga forskot með hreint út sagt magnaðri troðslu.

Njarðvíkingar gáfust þó ekki upp og söxuðu forskotið niður í níu stig fyrir lokaleikhlutann.

Heimamenn fóru hins vegar aldrei á taugum. Þeir héldu Njarðvíkingum í hæfilegri fjarlægð það sem eftir er og áttu alltaf svör þegar gestirnir hótuðu áhlaupi. Heimamenn héldu út og unnu að lokum 11 stiga sigur, 107-96, og leiða því einvígið 2-0.

Þriðji leikur liðanna fer fram næstkomandi föstudag í Njarðvík og þá er að duga eða drepast fyrir Njarðvíkinga. Annað hvort vinna þeir þann leik, eða eru komnir í sumarfrí.

Atvik leiksins

Það er bara eitt atvik sem kemur til greina. Troðslan hjá Justin James um miðbik 3. leikhluta til að koma Álftanesi í 20 stiga forskot. Maður minn lifandi. Ræðst á körfuna og treður yfir Mario Matasovic. Þrátt fyrir að Njarðvíkingar hafi náð að saxa vel á forskotið eftir þetta virtist þetta vera augnablikið þar sem tennurnar voru dregnar úr gestunum.

Stjörnur og skúrkar

Lengst framan af leik var Justin James potturinn og pannan í sóknarleik Álftnesinga. Hann hélt svo sem áfram allan leikinn og endaði sem stigahæsti maður vallarins með 29 stig. Þá var David Okeke einnig virkilega öflugur í liði heimamanna og skoraði 28 stig og Haukur Helgi Pálsson endaði með 22 stig.

Í liði Njarðvíkinga var Khalil Shabazz atkvæðamestur með 25 stig.

Hins vegar má segja að stórir póstar í Njarðvíkurliðinu hafi einhverntíman átt betri leik en í kvöld. Dwayne Lautier skoraði vissulega 16 stig fyrir liðið, en var aðeins með 36 prósent nýtingu utan af velli. Fleiri geta tekið þetta til sín. Leikmenn á borð við Dominykas Milka og Mario Matasovic skiluðu ekkert slæmum tölum, en það var eitthvað sem vantaði frá þeim þegar maður horfði á leikinn.

Dómararnir

Jóhannes Páll Friðriksson, Gunnlaugur Briem og Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson fengu það verðuga verkefni að hafa hemil á hlutunum í kvöld. Þremenningarnir skiluðu verkinu nokkuð vel frá sér, þrátt fyrir að stuðningsfólk beggja liða hafi í nokkur skipti fórnað höndum.

Stemning og umgjörð

Úrslitakeppni í körfubolta. Það þarf í raun ekki að segja mikið meira um stemninguna. Áhorfendur á Álftanesi létu vel í sér heyra og Kaldalónshöllin var smekkfull.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira