Uppgjörið: Njarðvík - Álftanes 89-95 | Álftnesingar sóttu sigur í stemningslítinn Stapaskóla Ágúst Orri Arnarson skrifar 3. apríl 2025 18:16 Dúi Þór Jónsson dekkaður af Khalil Shabazz, stigahæsta leikmanni kvöldsins. Myndin er úr leik liðanna fyrr í vetur. vísir Álftanes sótti 89-95 sigur gegn Njarðvík í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Bónus deildar karla. Tap varð því niðurstaðan í fyrsta úrslitakeppnisleik Njarðvíkinga á nýjum heimavelli, í IceMar höllinni við Stapaskóla, þar sem stemningin var mun minni en þekktist í Ljónagryfjunni gömlu. Njarðvík byrjaði vel og upplegg liðsins sást strax í fyrstu tveimur sóknunum, barningur undir hringnum hjá Domynikas Milka og snöggt skot frá Dwayne Lautier-Ogunleye. Vörn Álftnesinga var opin og óskipulögð fyrstu mínúturnar en batnaði eftir að Kjartan Atli bað um leikhlé þegar liðið var lent tíu stigum undir. Dúi Þór og Hörður Axel settu síðan sitt hvoran þristinn og minnkuðu muninn niður í fimm stig áður en fyrsta leikhluta lauk. Í upphafi annars leikhluta lenti Álftanes hins vegar í léttu áfalli, þegar David Okeke fékk sínu þriðju villu eftir það sem virtist kolrangur dómur. Þá héldu flestir að Njarðvík myndi ganga á lagið og auka við forystuna en þróunin varð þveröfug. Álftanes efldist við mótlætið og átti stórkostlegt áhlaup í öðrum leikhluta, sem stuðningsmenn og stemningin í stúkunni hjálpaði mikið við. Allt virtist ganga upp hjá Álftanesi í öðrum leikhluta, alveg þar til Veigar Páll setti flautuþrist fyrir Njarðvík til að loka hálfleiknum og minnka muninn í átta stig, 47-55. Flautuþristur Veigars færði Njarðvíkingum aukna trú, sem þeir tóku með sér inn í seinni hálfleik og nýttu vel. Álftanes var enn að jafna sig og skoraði ekki stig fyrr en leikurinn var orðinn jafn í upphafi þriðja leikhluta. Þá tók við hnífjöfn, hörkubarátta milli tveggja liða sem kunna að láta finna fyrir sér. Liðin skiptust á því að taka forystuna en leikurinn hélst nokkurn veginn jafn allan þriðja leikhluta. Khalil Shabazz setti síðan annan flautuþrist fyrir Njarðvík, sem gaf þeim 72-70 forystu fyrir fjórða leikhluta. Þegar líða fór á fjórða leikhluta var Álftanes sterkari aðilinn, en ekki munaði miklu. Álftnesingar náðu góðum varnarstoppum og settu erfiðar körfur hinum megin. Hægt og bítandi juku þeir við forystuna meðan hlutirnir gengu illa upp hjá heimamönnum. Khalil Shabazz setti hins vegar stórt skot fyrir Njarðvík og minnkaði muninn í þrjú stig þegar hálf mínúta var eftir, en nær komust þeir ekki. Khalil klikkaði í næstu sókn og Álftnesingar kláruðu leikinn á vítalínunni. Lokatölur 89-95. Stjörnur og skúrkar Tómas Þórður með stórkostlega innkomu af Álftanesbekknum. Níu stig úr þremur þristum og tvö sóknarfráköst sem leiddu til stiga hjá öðrum. David Okeke setti mjög mikilvæg stig undir lokin, en gat annars lítið tekið þátt eftir að hafa lent í villuvandræðum snemma. Dimitrios Klonaras leysti hann vel af undir körfunni og greip 13 fráköst. Justin James drjúgur í stigasöfnun að vana. Stigahæstur með 23 stig, Haukur Helgi fylgdi honum eftir með 18 stig og Hörður Axel með 14 stig. Njarðvíkurmegin var Khalil Shabazz allt í öllu og sá sem liðið leitaði að undir lokin. Stigahæstur með 30 stig en bakvarðarbróðir hans Dwayne Lautier-Ogunleye setti 17 stig, líkt og Dominykas Milka. Njarðvíkingar fengu lítið framlag frá sínum varamönnum. Fimm stig frá Snjólfi og ekkert frá Brynjari Kára. Stemning og umgjörð Meiru bjóst maður við, mun meiru. Fyrsti úrslitakeppnisleikurinn á nýjum heimavelli Njarðvíkinga og þeir voru langt frá því að fylla húsið. Sem er í sjálfu sér allt í lagi, en stemningin skilaði sér ekki nægilega vel frá þeim áhorfendum sem mættu. Fullt hrós hins vegar á Álftnesinga, sem höfðu hátt og áttu án efa stóran hlut í sigri síns liðs. Viðtöl Kjartan Atli: Harður leikur og hátt spennustig, sem mun speglast í leik tvö Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness.vísir / diego „Þetta var hörkuleikur, miklar tilfinningar, mér líður vel“ sagði Kjartan Atli, þjálfari Álftanes, fljótlega eftir að sigur hans manna var í hús. Miklar tilfinningar og maður sá líka að þetta eru tvö lið sem kunna og geta látið finna fyrir sér? „Já, rosa barátta og örugglega erfitt að dæma þennan leik. Hátt spennustig og það er gaman í þessu húsi hvað áhorfendur eru nálægt leiknum. Sem magnaði líka upp spennustigið, menn heyrðu ekki mælt mál hérna. En já, mjög harður leikur, enda voru einhverjir í báðum liðum villaðir út.“ Næsti leikur á mánudaginn, hvað þurfið þið að gera til að komast 2-0 yfir? „Nú hefst bara þessi klassíska vinna. Yfirlega þjálfaranna að greina leikinn, hvað það var sem okkur líkaði í leiknum og hvað við viljum sjá minna af. Við þurfum bara að reyna að finna það. Maður er allt of tilfinningalega tengdur leiknum akkúrat núna en við komum saman á bíl, við Hjalti [Þór Vilhjálmsson, aðstoðarþjálfari], þannig að núna keyrum við bara brautina og ræðum aðeins málin. Höldum svo áfram að undirbúa liðið. Þetta er heil sería, það er 1-0 og þarf bara að halda áfram. Ég reikna með að bæði lið verði áfram mjög aggressív, þannig að ég myndi halda að leikur tvö verði svolítil spegilmynd af þessum leik“ sagði Kjartan að lokum. „Ég hefði viljað sjá fleira fólk“ Rúnar Ingi einbeittur á hliðarlínunni.vísir / diego „Svekktur með að kasta heimavellinum svona í fyrsta leik. Heilt yfir náðum við ekki að kveikja á okkar leik. Það komu kaflar, í þriðja leikhluta sérstaklega, en heilt yfir náum við ekki að brjóta tempóið okkur í hag í dag“ sagði svekktur Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, strax eftir leik. „Við byrjuðum leikinn vel en svo koma þeir með áhlaup og okkar viðbrögð við því, stemningunni að færast þeirra megin, hún var ekki nægilega góð. Við gefum upp allt of mikið af auðveldum körfum sem við viljum koma í veg fyrir. Það fer að hafa áhrif á orkustigið og gleðina við það að spila körfubolta… Við reyndum að breyta til í hálfleik og mér fannst við koma sterkt inn í seinni hálfleikinn, kraftur í okkur en við vorum búnir að gefa þeim ákveðið sjálfstraust með 55 stiga fyrri hálfleik. Svo er þetta bara 50/50 hérna í lokin. Við erum búnir að spila tvo nákvæmlega eins leiki við þá í vetur, 50/50 síðustu fimm mínúturnar, og við höfum náð áhlaupinu í deildarleikjunum en áhlaupið var þeirra megin í kvöld og það er hrikalega svekkjandi“ sagði Rúnar einnig. Hvernig fannst þér heimavöllurinn nýtast ykkur í kvöld? „Ég hefði viljað sjá fleira fólk. Nýta það að við erum komin í þetta glæsilega, margumtalaða hús. Við erum búnir að vera flottir í vetur og mér finnst strákarnir eiga skilið að fá fullt af fólki. Þetta er bara byrjað, þetta er ekki eins og 2006 eða 2007 þegar þú mættir bara seint í undanúrslitum og tekur svo úrslitaeinvígið. Við erum í deild sem er svakalega sterk, öll einvígin í átta liða úrslitum eru stríð og við þurfum að fylla höllina í átta liða úrslitum. Halda því í gegnum apríl og maí mánuð. Núna þarf okkar fólk að mæta á Álftanesið á mánudaginn og við þurfum að svara fyrir þetta“ sagði Rúnar, sem tekur margt jákvætt með sér úr leiknum og vonast til að sjá liðið mæta beittara á mánudaginn. Bónus-deild karla UMF Njarðvík UMF Álftanes
Álftanes sótti 89-95 sigur gegn Njarðvík í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Bónus deildar karla. Tap varð því niðurstaðan í fyrsta úrslitakeppnisleik Njarðvíkinga á nýjum heimavelli, í IceMar höllinni við Stapaskóla, þar sem stemningin var mun minni en þekktist í Ljónagryfjunni gömlu. Njarðvík byrjaði vel og upplegg liðsins sást strax í fyrstu tveimur sóknunum, barningur undir hringnum hjá Domynikas Milka og snöggt skot frá Dwayne Lautier-Ogunleye. Vörn Álftnesinga var opin og óskipulögð fyrstu mínúturnar en batnaði eftir að Kjartan Atli bað um leikhlé þegar liðið var lent tíu stigum undir. Dúi Þór og Hörður Axel settu síðan sitt hvoran þristinn og minnkuðu muninn niður í fimm stig áður en fyrsta leikhluta lauk. Í upphafi annars leikhluta lenti Álftanes hins vegar í léttu áfalli, þegar David Okeke fékk sínu þriðju villu eftir það sem virtist kolrangur dómur. Þá héldu flestir að Njarðvík myndi ganga á lagið og auka við forystuna en þróunin varð þveröfug. Álftanes efldist við mótlætið og átti stórkostlegt áhlaup í öðrum leikhluta, sem stuðningsmenn og stemningin í stúkunni hjálpaði mikið við. Allt virtist ganga upp hjá Álftanesi í öðrum leikhluta, alveg þar til Veigar Páll setti flautuþrist fyrir Njarðvík til að loka hálfleiknum og minnka muninn í átta stig, 47-55. Flautuþristur Veigars færði Njarðvíkingum aukna trú, sem þeir tóku með sér inn í seinni hálfleik og nýttu vel. Álftanes var enn að jafna sig og skoraði ekki stig fyrr en leikurinn var orðinn jafn í upphafi þriðja leikhluta. Þá tók við hnífjöfn, hörkubarátta milli tveggja liða sem kunna að láta finna fyrir sér. Liðin skiptust á því að taka forystuna en leikurinn hélst nokkurn veginn jafn allan þriðja leikhluta. Khalil Shabazz setti síðan annan flautuþrist fyrir Njarðvík, sem gaf þeim 72-70 forystu fyrir fjórða leikhluta. Þegar líða fór á fjórða leikhluta var Álftanes sterkari aðilinn, en ekki munaði miklu. Álftnesingar náðu góðum varnarstoppum og settu erfiðar körfur hinum megin. Hægt og bítandi juku þeir við forystuna meðan hlutirnir gengu illa upp hjá heimamönnum. Khalil Shabazz setti hins vegar stórt skot fyrir Njarðvík og minnkaði muninn í þrjú stig þegar hálf mínúta var eftir, en nær komust þeir ekki. Khalil klikkaði í næstu sókn og Álftnesingar kláruðu leikinn á vítalínunni. Lokatölur 89-95. Stjörnur og skúrkar Tómas Þórður með stórkostlega innkomu af Álftanesbekknum. Níu stig úr þremur þristum og tvö sóknarfráköst sem leiddu til stiga hjá öðrum. David Okeke setti mjög mikilvæg stig undir lokin, en gat annars lítið tekið þátt eftir að hafa lent í villuvandræðum snemma. Dimitrios Klonaras leysti hann vel af undir körfunni og greip 13 fráköst. Justin James drjúgur í stigasöfnun að vana. Stigahæstur með 23 stig, Haukur Helgi fylgdi honum eftir með 18 stig og Hörður Axel með 14 stig. Njarðvíkurmegin var Khalil Shabazz allt í öllu og sá sem liðið leitaði að undir lokin. Stigahæstur með 30 stig en bakvarðarbróðir hans Dwayne Lautier-Ogunleye setti 17 stig, líkt og Dominykas Milka. Njarðvíkingar fengu lítið framlag frá sínum varamönnum. Fimm stig frá Snjólfi og ekkert frá Brynjari Kára. Stemning og umgjörð Meiru bjóst maður við, mun meiru. Fyrsti úrslitakeppnisleikurinn á nýjum heimavelli Njarðvíkinga og þeir voru langt frá því að fylla húsið. Sem er í sjálfu sér allt í lagi, en stemningin skilaði sér ekki nægilega vel frá þeim áhorfendum sem mættu. Fullt hrós hins vegar á Álftnesinga, sem höfðu hátt og áttu án efa stóran hlut í sigri síns liðs. Viðtöl Kjartan Atli: Harður leikur og hátt spennustig, sem mun speglast í leik tvö Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness.vísir / diego „Þetta var hörkuleikur, miklar tilfinningar, mér líður vel“ sagði Kjartan Atli, þjálfari Álftanes, fljótlega eftir að sigur hans manna var í hús. Miklar tilfinningar og maður sá líka að þetta eru tvö lið sem kunna og geta látið finna fyrir sér? „Já, rosa barátta og örugglega erfitt að dæma þennan leik. Hátt spennustig og það er gaman í þessu húsi hvað áhorfendur eru nálægt leiknum. Sem magnaði líka upp spennustigið, menn heyrðu ekki mælt mál hérna. En já, mjög harður leikur, enda voru einhverjir í báðum liðum villaðir út.“ Næsti leikur á mánudaginn, hvað þurfið þið að gera til að komast 2-0 yfir? „Nú hefst bara þessi klassíska vinna. Yfirlega þjálfaranna að greina leikinn, hvað það var sem okkur líkaði í leiknum og hvað við viljum sjá minna af. Við þurfum bara að reyna að finna það. Maður er allt of tilfinningalega tengdur leiknum akkúrat núna en við komum saman á bíl, við Hjalti [Þór Vilhjálmsson, aðstoðarþjálfari], þannig að núna keyrum við bara brautina og ræðum aðeins málin. Höldum svo áfram að undirbúa liðið. Þetta er heil sería, það er 1-0 og þarf bara að halda áfram. Ég reikna með að bæði lið verði áfram mjög aggressív, þannig að ég myndi halda að leikur tvö verði svolítil spegilmynd af þessum leik“ sagði Kjartan að lokum. „Ég hefði viljað sjá fleira fólk“ Rúnar Ingi einbeittur á hliðarlínunni.vísir / diego „Svekktur með að kasta heimavellinum svona í fyrsta leik. Heilt yfir náðum við ekki að kveikja á okkar leik. Það komu kaflar, í þriðja leikhluta sérstaklega, en heilt yfir náum við ekki að brjóta tempóið okkur í hag í dag“ sagði svekktur Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, strax eftir leik. „Við byrjuðum leikinn vel en svo koma þeir með áhlaup og okkar viðbrögð við því, stemningunni að færast þeirra megin, hún var ekki nægilega góð. Við gefum upp allt of mikið af auðveldum körfum sem við viljum koma í veg fyrir. Það fer að hafa áhrif á orkustigið og gleðina við það að spila körfubolta… Við reyndum að breyta til í hálfleik og mér fannst við koma sterkt inn í seinni hálfleikinn, kraftur í okkur en við vorum búnir að gefa þeim ákveðið sjálfstraust með 55 stiga fyrri hálfleik. Svo er þetta bara 50/50 hérna í lokin. Við erum búnir að spila tvo nákvæmlega eins leiki við þá í vetur, 50/50 síðustu fimm mínúturnar, og við höfum náð áhlaupinu í deildarleikjunum en áhlaupið var þeirra megin í kvöld og það er hrikalega svekkjandi“ sagði Rúnar einnig. Hvernig fannst þér heimavöllurinn nýtast ykkur í kvöld? „Ég hefði viljað sjá fleira fólk. Nýta það að við erum komin í þetta glæsilega, margumtalaða hús. Við erum búnir að vera flottir í vetur og mér finnst strákarnir eiga skilið að fá fullt af fólki. Þetta er bara byrjað, þetta er ekki eins og 2006 eða 2007 þegar þú mættir bara seint í undanúrslitum og tekur svo úrslitaeinvígið. Við erum í deild sem er svakalega sterk, öll einvígin í átta liða úrslitum eru stríð og við þurfum að fylla höllina í átta liða úrslitum. Halda því í gegnum apríl og maí mánuð. Núna þarf okkar fólk að mæta á Álftanesið á mánudaginn og við þurfum að svara fyrir þetta“ sagði Rúnar, sem tekur margt jákvætt með sér úr leiknum og vonast til að sjá liðið mæta beittara á mánudaginn.