Íslenski boltinn

Andrea skaut Blikum á­fram í úr­slita­leikinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andrea Rut Bjarnadóttir átti gott skot og tryggði Breiðabliki sigur rétt áður en leiktíminn rann út. 
Andrea Rut Bjarnadóttir átti gott skot og tryggði Breiðabliki sigur rétt áður en leiktíminn rann út.  Vísir/Vilhelm

Breiðablik vann 2-1 gegn Val á Kópavogsvelli í undanúrslitum Lengjubikars kvenna og mun mæta annað hvort Þór/KA eða Stjörnunni í úrslitaleik. Andrea Rut Bjarnadóttir skoraði sigurmarkið með lúmsku skoti rétt fyrir leikslok. 

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sem fór frá Hlíðarenda í Kópavoginn fyrr í vetur, tók forystuna fyrir Breiðablik á 19. mínútu með fínni vinstri fótar afgreiðslu eftir fyrirgjöf Samönthu Smith.

Snemma í seinni hálfleik átti Fanndís Friðriksdóttir frábært skot, sem small í stöngina inn, og jafnaði leikinn fyrir Valskonur gegn sínu uppeldisfélagi.

Útlit var fyrir vítaspyrnukeppni en á lokamínútu leiksins átti Andrea Rut Bjarnadóttir lúmskt skot sem skoppaði í fjærhornið og tryggði Breiðabliki sigur.

Breiðablik mun því mæta annað hvort Þór/KA eða Stjörnunni í úrslitaleik Lengjubikarsins en undanúrslitaleikur þeirra fer fram á mánudaginn. Úrslitaleikur Lengjubikarsins verður spilaður föstudaginn 28. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×