Innlent

Var brugðið og vill ítar­lega skoðun á að­komu for­sætis­ráðu­neytisins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins, vill að aðkoma forsætisráðuneytisins og tímalína málsins verði skoðuð.
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins, vill að aðkoma forsætisráðuneytisins og tímalína málsins verði skoðuð. Vísir/Vilhelm

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að rannsaka þurfi atburðarrásina sem leiddi til þess að Ásthildur Lóa Þórsdóttir sagði af sér sem mennta- og barnamálaráðherra í gærkvöldi. Svör forsætisráðherra um tímalínu málsins og meintan trúnaðarbrest hafi ekki verið nógu skýr.

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins segir sér hafa brugðið og það hafi komið sér á óvart þegar greint var frá afsögn Ásthildar Lóu og ástæðu þess í gær. Ekkert annað hafi verið í stöðunni fyrir Ásthildi en að segja af sér.

„Og eins líka að gera þetta bara hratt, að taka ákvörðun hratt að stíga út úr ríkisstjórninni. Ég held að það hafi verið hárrétt ákvörðun sömuleiðis,“ segir Guðrún í samtali við fréttastofu. 

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði á fundi með fjölmiðlum í gærkvöldi að ellefta mars hafi erindi borist til ráðuneytisins, án útskýringa um erindi málsins, þar sem óskað var eftir fundi með forsætisráðherra og fram kom að í lagi væri að barnamálaráðherra sæti þann fund. Aðstoðarmaður hennar hafi þá haft samband við aðstoðarmann Ásthildar Lóu, sem sagðist ekki þekkja innsendanda erindisins.

Í kjölfarið hafi borist ítrekun án þess að erindið kæmi fram og óskaði ráðuneytið eftir útskýringu. Eftir að útskýring á málinu barst ákvað ráðuneytið að ekki yrði boðið upp á einkafund.

„Engar upplýsingar um það erindi bárust mennta- og barnamálaráðherra, ég ræddi það aldrei við mennta- og barnamálaráðherra. Með því að hafna einkafundi með forsætisráðherra er með engu verið að taka afstöðu til málsins,“ sagði Kristrún. 

Borgararnir verði að geta treyst æðsta trúnaðarmanni þjóðarinnar

Hún hafi ekki fyrr en í gær vitað að það sem fram kom í erindinu væri satt.

„Mér fannst þetta ekki nógu skýr svör og ég held að það sé mjög mikilvægt núna að málið verði rannsakað. Það þarf að fara yfir tímalínuna og mér finnnst ráðherrarnir hafa verið tvísaga. Það þarf bara að fara gaumgæfilega yfir málið og sérstaklega aðkomu forsætisráðuneytisins að því,“ segir Guðrún. 

„Það virðist vera að það hafi orðið leki úr forsætisráðuneytinu. Mér finnst það mjög alvarlegt. Mér finnst líka alvarlegt að eftir að forsætisráðherra er upplýstur um málið líður vika þangað til eitthvað er aðhafst í málinu og það er ekki gert fyrr en fjölmiðlar hafa samband.“

Hún segir nauðsynlegt að málið verði rýnt í þaula.

„Borgararnir verða að geta treyst því að þeir geti farið til æðsta trúnaðarmanns þjóðarinnar með mál og geta treyst því að þau séu tekin til skoðunar og að trúnaði sé haldið. Ef það reynist raunin að það hafi verið brotið á trúnaði gegn borgara er það að mínu mati hneyksli.“

Kjörnir fulltrúar verði að vera gagnrýnir á sjálfa sig

Ásthildur Lóa ætlar ekki að segja af sér þingmennsku. Guðrún segir fólk þurfa að meta hæfi sitt þegar það tekur að sér ábyrðgarstöðu.

„Hún verður vitaskuld að eiga það við sjálfa sig. Fólk verður að meta hæfi sitt þegar það fer í ábyrgðarstörf fyrir þjóðina. Hún er æðsti yfirmaður yfir skólakerfi og yfir börnum, barnamálaráðherra. Þannig er það nú á þinginu að hver þingmaður metur hæfi sitt til starfa. Við verðum að vera gagnrýnin á okkur sjálf, við sem tökum að okkur ábyrgðarhlutverk fyrir þjóð okkar,“ segir Guðrún. 

„Hún verður að meta stöðu sína og hvort hún njóti trausts þjóðarinnar til að vinna í þágu þjóðar sinnar.“

Þónokkur hneykslismál frá upphafi kjörtímabils

Nokkur mál hafa komið upp frá upphafi kjörtímabils sem vakið hafa upp mikla gagnrýni á Flokk fólksins. Má þar nefna þegar Inga Sæland, formaður hans, hringdi í skólastjóra framhaldsskóla barnabarns síns vegna týnds skópars.

Eins hefur gustað um flokkinn vegna styrkjamálsins svokallaða og viðbragða hans, sér í lagi í garð Morgunblaðsins, og ummæla þingmanns flokksins um að endurskoða styrki til fjölmiðilsins vegna málsins. 

Þá má nefna ummæli Ásthildar Lóu sjálfrar, um að hún vantreysti dómskerfi landsins, eftir að hún tapaði bótamáli á hendur íslenska ríkinu vegna meintra mistaka fulltrúa sýslumanns við úthlutun eftir uppboð á heimili hennar árið 2017.

„Frá því að þessi ríkisstjórn hóf störf erum við búin að fá fréttir þar sem ráðherrar eru að hringja í skólastjórnendur, það eru hótanir í garð fjölmiðla sem að þeirra mati skrifa gegn ríkisstjórninni, það eru kúgvendingar í stefnumálum stjórnarflokka eftir því hvernig vindar blásar. Það er eins og þetta sé það helsta sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á hingað til og hún er varla byrjuð,“ segir Guðrún. 


Tengdar fréttir

Neitar því að hafa verið leiðbeinandi ungs barnsföður síns

Ásthildur Lóa Þórsdóttir hafnar því að hún hafi verið leiðbeinandi unglingsdrengs sem hún eignaðist barn með og varð til þess að hún sagði af sér sem ráðherra í gær. Hún segir að maðurinn hafi setið um sig og hún ekki höndlað aðstæður á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×