Upp­gjörið: Njarð­vík - Hamar/Þór 84-81 | Njarð­víkingar í úr­slita­leikinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Brittany Dinkins úr Njarðvík sækir á Fatoumata Jallow leikmann Hamars/Þór í leiknum í Smáranum í dag.
Brittany Dinkins úr Njarðvík sækir á Fatoumata Jallow leikmann Hamars/Þór í leiknum í Smáranum í dag. Vísir/Anton Brink

Njarðvík er komið í úrslitaleik VÍS-bikars kvenna í körfu eftir 84-81 sigur á Hamri/Þór í undanúrslitaleik. Leikurinn væri æsispennandi og Hamar/Þór fékk tækifæri til að jafna metin í lokasókn sinni en tókst ekki.

Þegar staða liðanna í deildinni var skoðuð fyrir leikinn var ekkert skrýtið að allflestir sérfræðingar gerðu ráð fyrir því að Njarðvík myndi fara nokkuð þægilega í gegnum þennan undanúrslitaleik. Njarðvík hafði unnið níu leiki í röð og var í 2. sæti Bónus-deildarinnar á meðan Hamar/Þór var í næst neðsta sæti. Njarðvík hafði þar að auki unnið báðar viðureignar liðanna í vetur nokkuð þægilega.

Paulina Hersler í harðri baráttu við Önnu Soffíu Lárusdóttur.Vísir/Anton Brink

Hamar/Þór sýndi þó strax í upphafi að þær ætluðu sér eitthvað annað og meira en bara vera með í leiknum. Liðið var með frumkvæðið allan fyrsta leikhlutann og komst mest átta stigum yfir snemma í öðrum leikhluta. Margir leikmenn voru að taka virkan þátt sóknarlega og voru átta leikmenn Hamars/Þórs komnir á blað áður en fyrri hálfleikur var allur.

Njarðvíkurliðið er hins vegar feykisterkt og nýtti hver mistök Hamars/Þórs til að refsa. Þær sóttu hratt þegar þær gátu og náðu forystunni um skamma stund undir lok fyrri hálfleiksins. Þegar hálfleiksflautið gall var staðan 41-40 fyrir Hamar/Þór og leikurinn galopinn.

Sara Björk Logadóttir með boltann í liði Njarðvikur.Vísir/Anton Brink

Þriðji leikhlutinn þróaðist á svipaðan hátt. Hamar/Þór var að gera mjög vel og setti Njarðvíkurliðið oft í vandræði á meðan leikmenn Njarðvíkur voru að gera mistök sem þær eru ekki vanar að gera. Um leið og leikmenn Hamars/Þór hins vegar slökuðu aðeins á var Njarðvíkurliðið mætt og oftast kom frumkvæðið frá magnaðri Brittany Dinkins. Staðan var 60-59 fyrir Hamri/Þór fyrir lokafjórðunginn og spennan mikil. 

Hann var æsispennandi. Dinkins hélt áfram að vera sú sem lét sóknarleik Njarðvíkur tikka og Abby Beeman var prímusmótorinn hinu megin. Í stöðunni 72-72 tók Emelie Hesseldahl rándýrt sóknarfrákast sem skilaði í kjölfarið þremur stigum frá Paulina Hersler. Njarðvík náði sjö stiga áhlaupi sem gerði Hamri/Þór erfitt fyrir.

Emelie Hesseldahl var Njarðvíkingum mikilvæg í frákastabaráttunni.Vísir/Anton Brink

Hamar/Þór náði reyndar að halda spennunni með því að setja þrjú þriggja stiga skot undir lok leiksins. Þær fengu tækifærið til að jafna í lokasókninni en þriggja stiga skot Kristrúnar Ríkeyjar Ólafsdóttur af löngu færi skoppaði af hringnum. Lokatölur 84-81 og Njarðvík því komið í úrslitaleik VÍS-bikarsins.

Atvik leiksins

Eftir að hafa verið komnar sjö stigum undir sýndi Hamar/Þór fádæma þrautsegju í lokin. Þær settu þrjú þriggja stiga skot á síðustu tuttugu sekúndunum og þegar Emelie Hesseldahl nýtti aðeins annað af tveimur vítum sínum með átta sekúndur á klukkunni fengu leikmenn Hamars/Þórs tækifæri til að jafna.

Hana Ivanusa hirðir frákast.Vísir/Anton Brink

Abby Claire dripplaði sig í vandræði en fann Kristrúnu Ríkeyju. Hún var alein fyrir miðri körfu, töluvert langt fyrir utan teig en skot hennar skoppaði af hringnum.

Stjörnur og skúrkar

Brittany Dinkins var sú sem færði Njarðvík þennan sigur. Dinkins hitti ekki vel en var stigahæst með 35 stig og sú sem gerði eitthvað þegar Njarðvík þurfti á því að halda. Emelie Hesseldahl var öflug í fráköstunum og tók hvorki fleiri né nítján fráköst í leiknum.

Brittany Dinkins sækir á Kristrúnu Ríkeyju Ólafsdóttur og Abby Beeman í liði Hamars/Þórs.Vísir/Anton Brink

Abby Claire Beeman skoraði 27 stig fyrir Hamar/Þór og gaf 12 stoðsendingar, frábær frammistaða hjá henni. Hana Ivanusa átti góða kafla og margir leikmenn Hamars/Þórs lögðu sín lóð á vogarskálarnar.

Dómararnir

Þeir Bjarki Þór Davíðsson, Sigurbaldur Frímannsson og Jakob Árni Ísleifsson sáu um að dæma leikinn. Þeir gerðu það að mestu leyti vel, auðvitað voru einhverjir dómar sem þjálfarar og leikmenn voru ósáttir með en heilt yfir var frammistaða þeirra góð.

Abby Beeman var frábær fyrir Hamar/Þór.Vísir/Anton Brink

Stemmning og umgjörð

Það var fín mæting í Smárann þar sem bikarvikan fer fram þetta árið. Það voru fleiri Njarðvíkurmegin í stúkunni en stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra og umgjörðin í Smáranum var ljómandi fín.

Viðtöl

„Það er ekki hægt að stoppa hana“

Hákon Hjartarson þjálfari Hamars/Þórs sagði sitt lið hafa spilað vel í leiknum gegn Njarðvík í undanúrslitaleik VÍS-bikarsins í dag. Hann sagði ekki hafa erfitt að gíra sínar stelpur upp í leikinn en liðið missti lykilleikmann í meiðsli fyrir viku síðan.

„Það er búið að ganga ýmislegt á í allan vetur, við erum ansi vanar því að vera að eiga við áföll. Við byrjuðum tímabilið eftir síðasta tímabil bara með fjóra leikmenn. Við höfum verið að möndla við þennan leikmannahóp allt tímabilið,“ sagði Hákon við Vísi eftir leik.

Hákon Hjartarson er þjálfari Hamars/Þórs.Vísir/Anton Brink

Hann sagði að leikur gegn Njarðvík um daginn hefði gengið vel en hans lið hefði gert enn betur í dag.

„Við spiluðum við þær heima um daginn og gerðum fjandi vel á löngum köflum. Við breyttum aðeins leikskipulaginu í dag og gerðum ennþá betur. Við ætlum bara að slá þær út úr úrslitakeppninni,“ sagði Hákon svo kokhraustur að lokum en Hamar/Þór á framundan úrslitaleik við Grindavík á miðvikudag þar sem ræðst hvort liðið fær síðasta sæti úrslitakeppninnar.

Brittany Dinkins reyndist liði Hamars/Þórs afar erfið í dag.

„Það er ekkert hægt að stoppa hana, það þarf bara að lifa með því og takmarka hinar. En við erum líka með eitt stykki Abby Beeman sem er helvíti erfitt að stoppa. Þær voru bara hrikalega flottar hér í kvöld og erfitt að stoppa báðar.  Mér fannst við vera að spila mjög vel í fyrri hálfleik og lungað úr leiknum. Það kom tveggja mínútna kafli þar sem ég var svekktur með ákvarðanatöku sóknarlega.“

Brittany Dinkins og Fatoumata Jallow eigast við.Vísir/Anton Brink

Sóknarfráköst Njarðvíkinga undir lokin reyndust þeim dýrmæt og þar sagði Hákon að reynsla lykilmanna hafa spilað stóra rullu.

„Þær eru með Brittany Dinkins, Emelie Hesseldah og Paulina Hersler sem eru reynsluboltar og búnar að spila á háu stigi lengi. Á meðan Kaninn minn er 23 ára og Bosman leikmaðurinn er tvítugur.“

Úr leiknum í dag.Vísir/Anton Brink

Hamar/Þór náði að búa til ótrúlega spennu undir lokin eftir að hafa verið níu stigum undir með rúmlega 24 sekúndur á klukkunni. Þær settu niður þrjár þriggja stiga körfur og hefðu getað jafnað með lokaskoti leiksins.

„Auðvitað einhver klikkuð skot, spjaldið ofan í þristur og eitthvað. En þetta er hluti af þessu, Brittany Dinkins var líka að setja fáránlega erfið skot í venjulegum leik. Svona er körfubolti, þetta er það fallega við íþróttina.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira