Leik lokið: Fram - Valur 27-26 | Fram hafði betur í toppslagnum

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Fram vann mikilvægan sigur gegn Val í kvöld.
Fram vann mikilvægan sigur gegn Val í kvöld. vísir/Anton

Efstu lið Olís-deildar kvenna, Fram og Valur, öttu kappi í kvöld í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal og var um hnífjafnan leik að ræða. Lauk leiknum með naumum tveggja marka sigri heimakvenna í leik sem var hnífjafn allan tímann. Lokatölur 28-26.

Fjögur stig skildu liðin að í töflunni fyrir leikinn, þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Aðeins eru rúmar tvær vikur síðan þessi lið mættust og var það í undanúrslitum Powerade bikarsins þar sem Fram sigraði Val, 22-20, og kom sér í úrslitaleikinn þar sem Haukar tryggðu sér bikarmeistaratitilinn að lokum.

Valskonur voru með yfirhöndina í leiknum til að byrja með og náðu mest þriggja marka forystu. Heimakonur í Fram voru þó ekki lengi að jafna leikinn og var staðan 5-5 eftir um tólf mínútna leik.

Fram að hálfleik fylgdust liðin algjörlega að í markaskorun og munaði aldrei meira en einu marki á liðunum. Staðan 12-12 í hálfleik.

Sennilega það markverðasta sem gerðist í fyrri hálfleik var það að Hafdís Renötudóttir, markvörður Vals, var tekin af velli eftir rúmar tuttugu mínútna leik, einfaldlega fyrir slaka frammistöðu. Slíkt heyrir til tíðinda á þeim bænum, þar sem landsliðsmarkvörðurinn spilar gjarnan allar mínútur í liði Vals.

Í síðari hálfleik hélt sama sagan áfram. Fram náði þó tveggja marka forystu eftir um tíu mínútna leik í síðari hálfleik, en Valskonur voru fljótar að láta pendúlinn sveiflast í hina áttina og voru komnar í tveggja marka forystu þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum, staðan 20-22 fyrir Val.

Framkonur náðu þó forystunni aftur fyrir lokakafla leiksins, en aldrei munaði meiru en tveimur mörkum á liðunum.

Þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum var vendipunktur í leiknum. Kom þá Thea Imani Sturludóttir, skytta Vals, á miðja vörn Fram sem var galopin. Stökk hún upp og skoraði. Dómarar leiksins dæmdu hins vegar ruðning á Theu þar sem tveir varnarmenn Fram reyndu að koma sér fyrir uppstökk Theu. Ágúst Jóhannesson, þjálfari Vals, var brjálaður yfir þessum dóm en þarna hefði leikurinn verið jafn, 25-25, ef markið hefði látið standa.

Valskonur fengu þó einnig lokaséns í síðustu sókn sinni í leiknum til að jafna leikinn, en í stað þess að ná skoti á markið var dæmd leiktöf á liðið. Afar klaufalegt á tímapunkti þar sem allt var undir.

Atvik leiksins

Það má velta fyrir sér hvort atvikanna sé stærra, vitlaus ruðningsdómur þegar fimm mínútur eru eftir eða leiktöf þegar 20 sekúndur eru eftir af leiknum. Bæði atvikin höfðu gríðarleg áhrif á úrslit leiksins að lokum.

Stjörnur og skúrkar

Valgerður Arnalds, leikstjórnandi Fram, var frábær í kvöld en henni gengur afskaplega vel að fylla skó Karenar Knútsdóttur sem lagði skóna á hilluna á dögunum. Valgerður skoraði sex mörk í leiknum og stýrði sóknarleik Fram eins og herforingi.

Thea átti einnig stórleik í liði Vals og skoraði tíu mörk og var með þrjár stoðsendingar.

Ekki oft sem Hafdís Renötudóttir er skúrkur í leikjum Vals, en hún átti dapran leik í dag sem er ansi fáheyrt. Aðeins rétt rúmlega 20% varsla hjá Hafdísi, sem var í tvígang tekin af velli í leiknum fyrir slaka frammistöðu en vanalega spilar hún nánast allar mínútur í leikjum Vals.

Dómarar

Ómar Ingi Sverrisson og Þorleifur Árni Björnsson áttu ekkert sérstakan dag í dag. Þjálfara á báðum bekkjunum kvörtuðu sáran oft um dóma og ekki dóma í leiknum og höfðu sitthvað til síns máls. Stærstu mistök þeirra í leiknum er sennilega ruðningsdómurinn á Theu undir lok leiks, en erfitt var að sjá hvernig það gat verið ruðningur.

Stemning og umgjörð

Flott umgjörð í Lambhagahöllinni en léleg mæting. Það var þó góðmennt á pöllunum og fólk lét vel í sér heyra.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira