Skoðun

Stöndum vörð um hlut­verk há­skóla – Kjósum Kol­brúnu

Ástríður Stefánsdóttir skrifar

18. og 19. mars næstkomandi kjósa nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands sér nýjan rektor. Höfuðmáli skiptir að til starfsins veljist einstaklingur sem getur staðið vörð um gildi háskólans og hafi skýra sýn á hlutverk hans í nútíð og framtíð. Sem æðsti stjórnandi skólans þarf rektor einnig að geta leitt saman ólíka hópa og verið talsmanneskja skólans út á við og við stjórnvöld.

Allir rektorsframbjóðendur eru sammála um að til þess að Háskólinn geti rækt hlutverk sitt þurfi að auka fjárveitingar til háskólastigins ásamt því að bæta starfsaðstæður nemenda jafnt sem kennara. Valið sem kjósendur standa frammi fyrir hverfist því ekki um málaskrána sem slíka heldur fremur um það hvaða frambjóðandi er líklegastur til að fylgja þeim málum eftir sem vinna þarf að og ná árangri.

Síðastliðinn áratug hef ég fylgst vel með störfum Kolbrúnar Pálsdóttur innan Háskóla Íslands. Hún hefur sem sviðsforseti Menntavísindasviðs sýnt að hún er hvoru tveggja öflugur stjórnandi og sterkur leiðtogi. Hún hefur til að bera skýra sýn á stöðu og hlutverk Háskólans í íslensku samfélagi, jafnframt því að hafa kjark og seiglu til að fylgja málum eftir, ekki síst í samskipum við stjórnvöld. Einmitt þeir eiginleikar í fari hennar munu gagnast Háskóla Íslands til að styrkja stöðu sína og standa vörð um mikilvægi rannsókna og fagmenntunar fyrir íslenskt samfélag.

Höfundur er prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×