Enski boltinn

Liverpool til­kynnir um risasamning við Adidas

Valur Páll Eiríksson skrifar
Yfirstandandi leiktíð er sú síðasta hjá Liverpool í Nike-treyjunni.
Yfirstandandi leiktíð er sú síðasta hjá Liverpool í Nike-treyjunni. AP Photo/Dave Thompson

Liverpool á Englandi hefur tilkynnt um samning félagsins við íþróttavöruframleiðandann Adidas. Liðið mun því leika í Adidas-treyjum frá og með næstu leiktíð.

Í tilkynningu Liverpool um samninginn kemur lengd samningsins við Adidas ekki fram en að hann sé til langs tíma. Liverpool skiptir því úr Nike yfir í Adidas fyrir næstu leiktíð.

The Athletic segir frá því að Liverpool hafi fengið um 60 milljónir punda, rúmlega tíu og hálfan milljarð króna, árlega vegna samningsins við Nike undanfarin fimm ár en samstarfið við Adidas feli í sér töluverð hærri greiðslur til félagsins.

Áður lék Liverpool í Adidas frá 1985 til 1996 og aftur frá 2006 til 2012.

Fernando Torres gerði það gott í Adidas-treyju Liverpool á sínum tíma.Alex Livesey/Getty Images

Liverpool leikur áfram í treyjum frá Nike út yfirstandandi leiktíð áður en samningurinn við Adidas tekur gildi 1. ágúst næst komandi.

Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, með 15 stiga forskot á Arsenal sem er í öðru sæti. Á þriðjudag spilar liðið við Paris Saint-Germain í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og mætir Newcastle United í úrslitaleik deildabikarsins á sunnudaginn.

Vera má því að liðið vinni til þriggja titla á síðustu leiktíð liðsins í Nike-treyjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×