Liverpool lifði af stór­skota­hríð í París og Elliott tryggði svo sigurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harvey Elliott átti sannkallaða draumainnkomu í París í kvöld.
Harvey Elliott átti sannkallaða draumainnkomu í París í kvöld. Getty/Adam Davy/

Liverpool getur þakkað fyrir að fara til baka frá París með 1-0 sigur á Paris Saint Germain en það lá á liðinu í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Varamaðurinn Harvey Elliott var hetja Liverpool. Hann kom inn á fyrir slakan Mohamed Salah og skoraði sigurmarkið mínútu síðar með sinni fyrstu snertingu.

Það er ekki hægt að segja að þessi sigur hafi verið sanngjarn þótt að Liverpool hafi spilað skynsamlega í þessum leik.

Liverpool liðið hefur verið með yfirburði í flestum leikjum sínum á tímabilinu en í kvöld voru þeir í tómum vandræðum með frábært franskt lið.

PSG hefur verið að fara illa með mótherja sína að undanförnu og við sáum af hverju í þessum leik í kvöld.

Parísarliðið var í stórsókn langstærsta hluta leiksins og oft skall hurð nærri hælum við Liverpool markið. Það er í raun ótrúlegt að liðið hafi ekki skorað.

Liverpool gat þakkað fyrir að hafa Brasilíumanninn Alisson Becker í markinu fyrir að lifa þetta af því hann átti stórleik.

Khvicha Kvaratskhelia kom boltanum reyndar í mark Liverpool með frábæru skoti á tuttugustu mínútu en myndbandsdómarar dæmdu markið réttilega af vegna rangstöðu.

Fyrri hálfleikurinn var eiginlega ein samfelld stórsókn hjá PSG þar sem franska liðið fékk hvert færið á fætur öðru.

Besta færið voru eiginlega þrjú á nokkrum sekúndum eftir að Alisson varði fyrst frábærlega frá Ousmane Dembele en Bradley Barcola fór síðan illa með tvö fráköst.

Á endanum var það síðan frábær skipting Arne Slot sem skilaði sigurmarki. Markið hans Elliott lagði Darwin Nunez upp en hann kom líka inn á sem varamaður.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira