Fótbolti

Rikki G ærðist þegar Hákon skoraði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson skorar markið gegn Borussia Dortmund.
Hákon Arnar Haraldsson skorar markið gegn Borussia Dortmund. ap/Martin Meissner

Hákon Arnar Haraldsson skoraði jöfnunarmark Lille gegn Borussia Dortmund í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Þetta var annað mark Hákonar í Meistaradeildinni í vetur og fyrsta mark Íslendings í útsláttarkeppninni síðan Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrir Barcelona gegn Liverpool 6. mars 2007.

Karim Adeyemi kom Dortmund yfir á 22. mínútu í leiknum í gær og þýska liðið var með forystu í hálfleik. Á 68. mínútu jafnaði Hákon metin.

Jonathan David renndi þá boltanum inn fyrir vörn Dortmund á Hákon sem skoraði framhjá Gregor Kobel, markverði heimamanna.

Ríkharð Óskar Guðnason, sem lýsti leiknum, hreinlega ærðist þegar Hákon kom boltanum í netið eins og heyra má í myndbandinu af markinu sem má sjá hér fyrir neðan.

Ekki nóg með að Hákon hafi skorað mikilvægt mark heldur var hann valinn maður leiksins af UEFA. Skagamaðurinn var sáttur eftir leikinn.

„Það fylgir því stórkostleg tilfinning að skora hér fyrir framan áttatíu þúsund manns og sérstaklega af því að við náðum líka jafnteflinu. Þetta var mjög mikilvægt mark og ég er því mjög ánægður með það,“ sagði Hákon.

Seinni leikur Lille og Dortmund fer fram á Stade Pierre-Mauroy miðvikudaginn 12. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×