Viðskipti innlent

Ekkert verður af frekari loðnu­ver­tíð

Árni Sæberg skrifar
Loðnan á færibandinu á Eskju á Eskifirði. Myndin er úr safni enda er engin loðna unnir þar um þessar mundir.
Loðnan á færibandinu á Eskju á Eskifirði. Myndin er úr safni enda er engin loðna unnir þar um þessar mundir. Eskja

Loðnurannsóknum Hafrannsóknastofnunar er lokið og ráðgjöf um frekari veiðar verður ekki veitt. Því er ljóst að loðnuvertíðinni þetta árið er lokið en hún var ein sú minnsta sem sögur fara af.

Í tilkynningu á vef Hafrannsóknastofnunar segir að uppsjávarveiðiskipin Aðalsteinn Jónsson og Polar Ammassak hafi í samvinnu við Hafrannsóknastofnun verið við loðnurannsóknir í síðustu viku. 

Markmiðið hafi verið að kanna hvort meira af loðnu hefði skilað sér inn á norðvesturmið síðan loðnumælingar fóru fram þar í fyrri hluta febrúarmánuðar. Magnið af loðnu sem mældist nú hafi verið ívið minna en fyrri mælingin og því ljóst að ekkert hefði bæst við loðnugönguna. Fyrri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um veiðar á 8589 tonnum loðnu á yfirstandandi vertíð standi því óbreytt.

Mest af loðnunni hafi verið að finna á grunnunum út af Húnaflóa og Skagafirði. Hafrannsóknastofnun áformi ekki fleiri loðnumælingar þennan veturinn.


Tengdar fréttir

Efnt til nýrrar loðnuleitar í kapphlaupi við tímann

Hafrannsóknastofnun og útgerðir loðnuskipa hafa ákveðið að efna til nýrrar loðnuleitar, þeirrar fjórðu frá áramótum. Þetta er sérstök aukaleit í von um að finna meiri loðnu og verður lagt af stað á tveimur skipum frá Austfjarðahöfnum strax í kvöld.

„Minnstu loðnuvertíð sögunnar að ljúka“

„Að öllu óbreyttu, þ.e.a.s. ef ekki verður gefinn út viðbótarkvóti er minnstu loðnuvertíð sögunnar að ljúka,“ segir í tilkynningu Vinnslustöðvarinnar um loðnuveiðar sem hafa farið fram síðan atvinnuvegaráðherra gaf út kvóta síðastliðinn fimmtudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×