Enski boltinn

Hamrarnir héldu Refunum í fallsæti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fagnaði afmælisdeginum með marki.
Fagnaði afmælisdeginum með marki. John Walton/AP

West Ham United lagði Leicester City nokkuð örugglega 2-0 í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Hamrarnir lyftu sér þar með upp við hlið Manchester United og Tottenham Hotspur í töflunni á meðan Refirnir eru áfram í fallsæti.

Leicester City hafði ekki skorað í síðustu þremur deildarleikjum sínum og ekki varð breyting á þegar liðið mætti West Ham í Lundúnum. 

Heimamenn voru langtum betri aðilinn og kom afmælisbarnið Tomáš Souček þeim yfir á 21. mínútu eftir að Mads Hermansen hafði varið skot Mohammed Kudus af stuttu færi. Var þetta í annað sinn sem Souček skorar á afmælisdaginn síðan hann gekk í raðir West Ham.

Undir lok fyrri hálfleiksins endaði góð sókn Hamranna með því að hinn mjög svo hávaxni miðvörður Jannik Vestergaard setti boltann í eigið net og staðan 2-0 West Ham í vil þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik.

Þar sem ekkert var skorað í síðari hálfleik lauk leiknum með 2-0 sigri West Ham sem er nú komið með 33 stig í 15. sæti að loknum 27 umferðum. Á sama tíma er Leicester í 19. sæti með 17 stig líkt og Ipswich Town sem er sæti ofar. Bæði lið eru fimm stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×