Enski boltinn

Lög­reglu­maður var fótboltabulla í felum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tveir lögreglumenn standa hér fyrir framan Ashburton Army, stuðningsmannahóp Arsenal,  á leik Arsenal og Everton í ensku úrvalsdeildinni en myndin tengist fréttinni ekki beint.
Tveir lögreglumenn standa hér fyrir framan Ashburton Army, stuðningsmannahóp Arsenal,  á leik Arsenal og Everton í ensku úrvalsdeildinni en myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Mark Leech

Lögreglumaður í London hefur misst vinnuna sína eftir að það komst upp hvað hann gerir í frítíma sínum. Hann var fótboltabulla og hefur verið dæmdur sem slíkur.

Lögreglumaðurinn skaut flugeld í átt að stuðningsmönnum Bayern München þegar liðin mættust í Meistaradeildinni í Þýskalandi í apríl á síðasta ári.

Þýska lögreglan handtók hann í kjölfarið og hann þurfti að borga hundrað evrur í sekt. Hann var með lambhúshettu og sólgleraugu til að reyna að fela hver hann væri.

Daily Mail segir frá því að fótboltabullan hafi fengið þriggja ára bann frá öllum fótboltaleikjum á Bretlandseyjum. Það sem er kannski enn verra fyrir hann að hann var líka rekinn úr lögreglunni og missti því starfið sitt.

Það kom líka í ljós að þetta var ekki einstakur leikur. Hann hafði margoft gerst sekur um óspektir á fótboltaleikjum frá október 2022 til apríl 2024.

Meðal þess var þegar hann kallaði „þyrla“ á útileik á móti Leicester City fyrir tveimur árum síðan. Það er mjög ósmekklegt enda lést Vichai Srivaddhanaprabha, eigandi félagsins, í þyrluslysi fyrir utan leikvanginn ásamt fjórum öðrum í október 2018.

Lögreglumaðurinn verður næstu árin að halda sér langt frá heimavelli Arsenal, Emirates leikvanginum. Hann verður að halda sér í 3,2 kílómetra fjarlægð. Hann má heldur ekki heimsækja aðra borg eða annað hverfi í London, fjórum klukkutímum fyrr eða fjórum klukkutímum eftir alla útileiki Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×