Íslenski boltinn

ÍR heldur á­fram að hrella liðin úr Bestu deildinni

Sindri Sverrisson skrifar
ÍR-ingar halda áfram að gera góða hluti í Lengjubikarnum.
ÍR-ingar halda áfram að gera góða hluti í Lengjubikarnum. ÍR Fótbolti

Eftir að hafa steinlegið gegn Aftureldingu fyrir viku síðan, í leik sem endaði 6-3, unnu FH-ingar öruggan 3-0 sigur gegn HK í Kórnum í kvöld, í Lengjubikar karla í fótbolta. Afturelding tapaði hins vegar 3-1 fyrir ÍR-ingum sem halda áfram að gera góða hluti í keppninni.

ÍR hafði unnið FH 1-0 í fyrsta leik sínum og hefur því unnið bæði Bestu deildarliðin í riðli 3, í fyrstu tveimur leikjum sínum.

Hákon Dagur Matthíasson skoraði tvö marka ÍR í kvöld og Guðjón Máni Magnússon eitt en Aron Jóhannsson gerði eina mark Mosfellinga.

ÍR er því með sex stig eftir tvo leiki en Afturelding með sex stig eftir þrjá leiki.

ÍR-ingurinn með sitt fyrsta mark fyrir FH

Kjartan Kári Halldórsson kom FH yfir gegn HK um miðjan fyrri hálfleik í kvöld og Bragi Karl Bjarkason, sem skoraði tíu mörk fyrir ÍR í Lengjudeildinni í fyrra og kom til FH í vetur, skoraði svo sitt fyrsta mark fyrir Hafnfirðinga á 58. mínútu.

Arnór Borg Guðjohnsen, sem kom inn á sem varamaður á 63. mínútu, skoraði svo þriðja mark FH korteri síðar.

Tumi Þorvarsson var rekinn af velli þegar fimm mínútur voru eftir svo HK-ingar kláruðu leikinn manni færri.

FH er núna með þrjú stig eftir þrjá leiki en HK-ingar án stiga eftir að hafa einnig tapað gegn Þór á Akureyri um síðustu helgi.

HK hóf reyndar keppnina á 2-0 tapi gegn Víkingum sem síðan drógu lið sitt úr keppni.

Upplýsingar um markaskorara úr leik ÍR og Aftureldingar eru af Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×