Erlent

Af­hentu ó­þekkt lík í stað Shiri Bibas

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bibas fjölskyldan var tekin til fanga af Hamas 7. október 2023.
Bibas fjölskyldan var tekin til fanga af Hamas 7. október 2023. epa/Abir Sultan

Komið hefur í ljós að óþekkt lík var meðal þeirra fjögurra sem Hamas-samtökin skiluðu Ísraelum í gær. Líkum Kfir og Ariel Bibas, yngstu gíslunum sem Hamas tóku til fanga 7. október 2023, voru afhent í gær en rannsókn leiddi í ljós að móður þeirra vantaði.

Samið hafði verið um að Hamas afhenti líkamsleifar Shiri Bibas og barna hennar en samkvæmt Ísraelsher leiddu athuganir í ljós að líkið sem var sagt vera af Shiri var í raun óþekktur einstaklingur. Umrætt lík virðist ekki passa við neinn á lista stjórnvalda yfir gísla í haldi Hamas.

Herinn segir þetta alvarlegt brot gegn hinu brothætta vopnahléssamkomulagi sem nú er í gildi og hafa krafist þess að Hamas skili líkamsleifum Shiri og öllum öðrum gíslum sem enn eru í haldi.

Fjölskyldu Shiri var greint frá stöðu mála í gær, meðal annars eiginmanni hennar Yarden, sem var látinn laus fyrr í mánuðinum. Yarden vissi ekki að eiginkona hans og börn hefðu verið tekin né að þau væru látin.

Fjórði einstaklingurinn sem Hamas afhentu látinn í gær var hinn 85 ára Oded Lifshitz.

Adam Boehler, sendifulltrúi Bandaríkjanna, sagði um tíðindin á CNN í gær að um væri að ræða hræðilegt og klárt brot á vopnahléssamkomulaginu.

„Ef ég væri þeir myndi ég láta alla lausa, annars eru þeir að horfa fram á allsherjartortímingu,“ sagði Boehler.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, fyrirskipaði árásir gegn „hryðjuverkamiðstöðum“ á Vesturbakkanum í gær, eftir að sprengjur sprungu í þremur rútum sem hafði verið lagt í borginni Bat Yam.

Engan virðist hafa sakað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×