Körfubolti

Warri­ors í­huga að sækja Durant á nýjan leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Durant gæti fært sig um set.
Durant gæti fært sig um set. Gregory Shamus/Getty Images

Golden State Warriors íhuga nú að sækja Kevin Durant á ný áður en félagaskiptagluggi NBA-deildarinnar í körfubolta lokar þann 6. febrúar. Durant lék með Warriors frá 2016-19 og varð meistari tvívegis.

Það er sama hvað gerist til loka gluggans í NBA þá mun ekkert komast nálægt skiptunum sem Los Angeles Lakers og Dallas Mavericks gerðu um liðna helgi. Svo stór voru þau skipti að það hefur vart verið fjallað um að De‘Aaron Fox hafi fært sig til San Antonio Spurs og Zach Levine hafi farið til Sacramento Kings.

Nú greinir The Athletic frá því að Jimmy Butler sé æstur í að ganga í raðir Phoenix Suns. Ljóst er að Butler mun ekki spila meira fyrir Miami Heat og því verður að teljast líklegt að honum verði skipt fyrir gluggalok þann 6. febrúar.

Suns er sagt vilja fá Butler en þar sem liðið getur ekki skipt Bradley Beal vegna klásúlu í samningi – og vill ekki skipta Devin Booker – þá gæti farið svo að hinn 36 ára gamli Durant verði sendur í burtu.

Warriors er sagt hafa mikinn áhuga að fá enn einn ellismellinn til liðs við sig. Stærstu nöfn liðsins eru hinn næstum 37 ára gamli Stephan Curry og Draymond Green, 34 ára. Ekki er þó talið víst að Durant sé tilbúinn að ganga aftur í raðir Warriors.

Svo gengur sú fiskisaga að takist Warriors ekki að sækja Durant þá gæti liðið reynt við LeBron James en það verður að teljast einstaklega ólíklegt. Eftir skipti helgarinnar þá skal þó aldrei segja aldrei þegar kemur að vistaskiptum NBA-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×