Erlent

Blátt bann við er­lendum fjár­fram­lögum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Tilefni frumvarpsins er að þingkosningar fara fram í vor en Grænlendingar mega sín lítils andspænis hagsmunum stórveldanna.
Tilefni frumvarpsins er að þingkosningar fara fram í vor en Grænlendingar mega sín lítils andspænis hagsmunum stórveldanna. Getty

Grænlenska landsstjórnin hyggst leggja blátt bann við nafnlausum og erlendum fjárhagsstuðningi til stjórnmálasamtaka. Ætlunin er að koma í veg fyrir erlend afskipti af þingkosningum þar í landi í vor.

Í dag var grænlenska þingið sett og tilkynnti Mimi Karlsen, forseti þingsins úr röðum stjórnarflokksins Inuit ataqatigiit, að frumvarp verði lagt fram á morgun og fái flýtimerðferð. Frumvarpið kveður á um að fjárframlög erlendra eða ónafngreindra aðila til stjórnmálasamtaka verði með öllu óheimil.

Fram kemur í umfjöllun Sermitsiaq um frumvarpið að það sé lagt fram „í ljósi alþjóðastjórnmálalegs áhuga á Grænlandi og þeirrar stöðu sem upp er komin, þar sem fulltrúar stórveldis sem jafnframt er bandamaður okkar hafa lýst því yfir að þeir vilji taka yfir Grænland.“

Þar er bersýnilega vitnað til ummæla Donalds Trump Bandaríkjaforseta og áhangenda hans sem hafa valdið miklu fjaðrafoki í grænlenskum stjórnmálum með yfirlýsingagleði sinni undanfarna mánuði. Hann hefur sagt það vera afgerandi fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna að þau nái fullum yfirráðum yfir Grænlandi.

Frumvarpið verður tekið fyrir á þingi þeirra Grænlendinga á morgun og gert er ráð fyrir því að það verði fyrirvaralaust að lögum.

Bannið gildir líka um staðbundnar og ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna. Þá verður það einnig stjórnmálahreyfingum óheimilt að þiggja fjárframlag frá einkaaðilum sem nemur samanlögðum 200 þúsund krónum dönskum, eða tæplega fjórum milljónum íslenskum, eða þá frá tilteknum einstaklingi eða fyrirtæki sem nemur 20 þúsund dönskum krónum, eða 400 þúsund íslenskum.

Frumvarpið felur einnig í sér breytingar á reglum er varða upplýsingarskyldu stjórnmálahreyfinga varðandi fjárframlög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×