Handbolti

Óli Stef fer með strákunum í sjóinn og Kári rakar af sér skeggið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Geirsson, Ólafur Stefánsson og Kári Kristjánsson á RÚV eftir leikinn í dag ásamt íþróttafréttakonunni Helgu Margréti Höskuldsdóttur.
Logi Geirsson, Ólafur Stefánsson og Kári Kristjánsson á RÚV eftir leikinn í dag ásamt íþróttafréttakonunni Helgu Margréti Höskuldsdóttur. Skjámynd/RÚV

Ólafur Stefánsson, Logi Geirsson og Kári Kristjánsson ætla allir í sjósund í Nauthálsvík í kvöld komist íslenska landsliðið í átta liða úrslitum á heimsmeistaramótinu í handbolta.

Eftir sigurinn á Argentínu í kvöld er ljóst að íslenska landsliðið fer í átta liða úrslit tapi annað hvort Egyptaland eða Króatía stigum í leikjunum sínum á eftir. Það eru kannski ekki líkleg úrslit og því var svolítið skrítinn stemmning eftir leikinn í dag.

Íslenska liðið hefur unnið fimm af sex leikjum sínum á mótinu sem duga vanalega til að komast áfram en liðið er með verri innbyrðisárangur en Króatar eftir skellinn á föstudaginn og það gæti komið í bakið á okkar strákum.

Þegar skipt var yfir í myndverið á RÚV eftir sannfærandi sigur á Argentínumönnum þá lofaði Ólafur Stefánsson því að hann myndi fara í sjósund í öllum fötunum falli hlutirnir með Íslandi í kvöld.

Félagar hans, Logi Geirsson og Kári Kristjánsson, tóku undir þetta og ætla í sjóinn með honum í Nauthólsvíkinni fái íslenska liðið slíka gjöf frá Slóvenum eða Grænhöfðaeyjum.

Kári gekk reyndar aðeins lengra og lofaði því að hann myndi raka af sér hið myndarlega skegg sitt komist íslenska liðið áfram. Logi ætlar meira að segja að mæta með vélina og raka af honum skeggið.

Ólafur og sérfræðingarnir voru ekki bjartsýnir á að íslenska liðið fá líka gjöf og Ólafur talaði  um að það væru bara fimmtán prósent líkur á slíku. Logi vildi halda meira í vonina og talaði um helmingslíkur.

„Sjáumst í Nauthólsvík,“ sagði Logi síðan léttur rétt áður en útsendingunni lauk. 

Það væri algjör draumur falli hlutirnir loksins með seinheppnum íslenskum landsliðsmönnum á eftir og bónusinn væri að sjá þá félaga í sjónum á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×