Erlent

Biden náðar Fauci, Milley og Cheney í for­varnar­skyni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Cheney, Milley og Fauci eru meðal þeirra sem Biden hefur náðað fyrirfram en óvinalisti Trump telur fjölda nafna.
Cheney, Milley og Fauci eru meðal þeirra sem Biden hefur náðað fyrirfram en óvinalisti Trump telur fjölda nafna.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur gripið til fordæmalausra aðgerða til að náða fyrirfram einstaklinga sem Donald Trump, verðandi forseti, hefur beint reiði sinni gegn.

Mun þetta vera í fyrsta sinn sem forseti Bandaríkjanna beitir valdi sínu með þessum hætti, það er að segja í forvarnarskyni, en í yfirlýsingu ef haft eftir Biden að um sé að ræða einstakar kringumstæður og hann geti ekki, samvisku sinnar vegna, gert ekki neitt.

Meðal þeirra einstaklinga sem Biden hefur náðað eru Anthony S. Fauci, fyrrverandi sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, Mark A. Milley, formaður herráðsins, og Liz Cheney, fyrrverandi þingkona Repúblikanaflokksins fyrir Wyoming.

Milley hefur þegar tjáð sig um málið og segist afar þakklátur, enda hafði Trump sagt að hann verðskuldaði að vera tekinn af lífi.

„Staðhæfulausar og pólítiskar rannsóknir eyðileggja líf, öryggi og fjármál einstaklingana sem þær beinast gegn og fjölskyldum þeirra,“ segir forsetinn fráfarandi í yfirlýsingunni. „Jafnvel þegar einstaklingar hafa ekki gert neitt af sér, og raunar gert hið rétta og verða á endanum hreinsaðir af sök, þá getur rannsókn eða saksókn ein og valdið óafturkræfum skaða á orðspori og fjármálum einstaklinga.“

Náðanirnar hafa verið til umræðu í Hvíta húsinu síðustu daga og aðstoðarmenn hans lagt áherslu á að þær þýði ekki að forsetinn telji viðkomandi hafa gerst seka um eitthvað. Hins vegar sé nauðsynlegt að grípa til aðgerða í ljósi fyrirheita Trump um að leita hefnda gegn andstæðingum sínum.

Sumir þeir sem Trump hefur hótað hefndum hafa stigið fram og sagst mótfallnir náðunum í forvarnarskyni. Þeirra á meðal er öldungadeildarþingamaðurinn Adam B. Schiff, sem fór fyrir rannsókn þingsins á Trump í fyrri forsetatíð hans. 

„Það væri rangt fordæmi að setja,“ sagði Schiff í samtali við CNN fyrr í mánuðinum. „Ég vil ekki sjá alla forseta hér eftir gefa út víðtækar náðanir til samstarfsmanna sinna á leiðinni út um dyrnar.“

Auk þeirra Fauci, Milley og Cheney náðaði Biden þingmenn sem sátu í nefnd sem rannsakaði árás stuðningsmanna Trump á þinghúsið 6. janúar 2021 og lögreglumenn sem báru vitni um reynslu sína af árásinni fyrir þingnefnd.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×