Erlent

Óttast að stór­iðja spilli besta stjörnu­skoðunar­stað jarðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Vetrarbrautin og aragrúi stjarna yfir Panaral-athuganastöð ESO í Atacama-eyðimörkinni. Kyrrt loft og fjarlægð frá ljósgjöfum gera svæðið einstaklega hentugt til stjörnuskoðunar.
Vetrarbrautin og aragrúi stjarna yfir Panaral-athuganastöð ESO í Atacama-eyðimörkinni. Kyrrt loft og fjarlægð frá ljósgjöfum gera svæðið einstaklega hentugt til stjörnuskoðunar. ESO/P. Horálek

Forsvarsmenn einnar umsvifamestu stjörnuathuganastöðvar heims vara við því að fyrirhuguð rafeldsneytisverksmiðja eigi eftir að spilla einum af fáum stöðum á jörðinni þar sem sést í ósnortinn stjörnuhimininn. Ljósmengun frá verksmiðjunni eigi eftir að trufla athuganir sjónauka í Atacama-eyðimörkinni.

Síleskst dótturfélag bandaríska orkufyrirtækisins AES Corporation er með tröllvaxið iðnaðarsvæði á teikniborðinu þar sem reisa á höfn, vetnis- og ammoníakverksmiðjum og þúsundum rafala nærri Panaral-athuganastöð Evrópsku stjörnustöðvarinnar á suðurhveli (ESO) í Atacama-eyðimörkinni.

Iðnaðarsvæðið á að ná yfir meira en 3.000 hektara, á við litla borg. Verksmiðjurnar yrðu aðeins fimm til ellefu kílómetra frá sjónaukum ESO, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá athuganastöðinni vegna framkvæmdanna. Verkefnið var lagt fram til umhverfismats á aðfangadag.

ESO segir verkefnið ógna ósnortnum himninum yfir Panaral-athuganastöðinni sem sé sá dimmasti og heiðasti yfir nokkurri stjörnuathuganastöð á jörðinni.

„Ryklosun á framkvæmdatímanum, aukin ókyrrð í andrúmsloftinu og sérstaklega ljósmengunin mun valda óbætanlegum skaða á getunni til stjarnfræðilegra athugana sem aðildarríki ESO hafa til þessa fjárfesta milljarða evra í,“ er haft eftir Xavier Barcons, framkvæmdastjóra ESO, í yfirlýsingunni.

Hvetur ESO sílesk stjórnvöld til þess að vernda stjörnuhimininn og finna athafnasvæði AES Andes annan stað. Næturhimininn yfir Panaral sé í raun náttúruminjar sem þjóni öllu mannkyninu, þvert á landamæri.

Fjöldi meiriháttar uppgötvana hefur verið gerður með sjónaukum ESO í Panaral. Þar náðist fyrsta myndin af fjarreikistjörnu og athuganir þar hafa staðfest að það herðir á útþenslu alheimsins. Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 2020 voru veitt fyrir rannsóknir á risasvartholinu í miðju Vetrarbrautarinnar en sjónaukar ESO léku stórt hlutverk í þeim.


Tengdar fréttir

Fyrsta nær­myndin af stjörnu utan Vetrar­brautarinnar

Stjörnufræðingum hefur í fyrsta sinn tekist að ná nærmynd af stjörnu fyrir utan Vetrarbrautina okkar. Stjarnan er í um 160.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er á leiðinni að verða að sprengistjörnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×