Sport

Júdó og karate ekki lengur með af­rekssér­sam­bönd að mati ÍSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski júdókappinn Sveinbjörn Jun Iura í glímu við Rússa á alþjóðlegu móti í Japan fyrir nokkrum árum.
Íslenski júdókappinn Sveinbjörn Jun Iura í glímu við Rússa á alþjóðlegu móti í Japan fyrir nokkrum árum. Getty/Christopher Jue

Framkvæmdastjórn Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands samþykkti fyrr í desember tillögu stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ um flokkun sérsambanda í afreksflokka.

Slík flokkun á sér stað ár hvert áður en úthlutað er afreksstyrkjum úr Afrekssjóði Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands.

Ný flokkun aðildarsambanda ÍSÍ var kynnt á heimasíðu sambandsins yfir jólin.

Fer flokkunin eftir alþjóðlegum árangri og umfangi alþjóðlegrar mótaþátttöku. Eru afrekssérsambönd svo flokkuð eftir fimm þrepa árangurskvarða út frá árangri þeirra í alþjóðlegum mótum undanfarin ár.

Gerðar voru þrjár breytingar á flokkun sérsambanda frá síðasta ári. Júdósamband Íslands og Karatesamband Íslands færast úr flokki afrekssérsambanda í flokk verkefnasérsambanda og Blaksamband Íslands færist úr flokki verkefnasérsambanda í flokk afrekssérsambanda.

Afrekssérsambönd ÍSÍ eru 21 sem skiptast í fimm þrep innan flokksins og verkefnasérsambönd eru tólf. Eitt sérsamband hefur ekki hlotið flokkun.

Í hæsta flokki eru níu sambönd en það eru Frjálsíþróttasamband Íslands, Fimleikasamband Íslands, Golfsamband Íslands, Handknattleikssamband Íslands, Íþróttasamband fatlaðra, Kraftlyftingasamband Íslands, Knattspyrnusamband Íslands, Skíðasamband Íslands og Sundsamband Íslands.

Körfuknattleikssamband Íslands kemst áfram ekki í efsta flokk en er í næsta flokki fyrir neðan ásamt Bogfimisambandi Íslands, Dansíþróttasambandi Íslands, Keilusambandi Íslands og Lyftingasambandi Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×