Áskorun

Áramótaheitin: Að sjá fyrir sér út­komuna en passa sig á nokkrum gryfjum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það skiptir máli að setja sér raunhæf áramótaheit og helst mælanleg. En það skiptir ekkert síður miklu máli að sjá fyrir sér útkomuna; hvort sem við stefnum að litlum eða stórum draumum.
Það skiptir máli að setja sér raunhæf áramótaheit og helst mælanleg. En það skiptir ekkert síður miklu máli að sjá fyrir sér útkomuna; hvort sem við stefnum að litlum eða stórum draumum. Vísir/Getty

Á nýju ári eru það ófáir sem setja sér einhver markmið. Oft heilsutengd í janúar en líka stærri markmið; um vinnuna, ástina, heimilið, nýja og gamla drauma, ferðalög og svo framvegis.

Hver svo sem heitin eru, er samt mikilvægt að setja sér raunhæf markmið, helst mælanleg. Því annars erum við svo líkleg til að nánast gleyma því sem við lofuðum okkur í upphafi árs.

Það er samt líka annað atriði sem skiptir verulega miklu máli þegar að við strengjum áramótaheitin. Og það er að sjá fyrir okkur árangurinn eða útkomuna.

Sumir kalla þetta að manifesta, en hvort sem fólk lítur á þetta sem hluta af alheimslögunum eða styðst við vísindin, er niðurstaðan alltaf sú sama: Það eykur líkurnar á að við náum markmiðum okkar eða lifum draumana okkar, ef við sjáum þá fyrir okkur.

Í ofanálag eykur það á hamingjuna okkar að skrifa niður vonir okkar og væntingar, sjá þannig fyrir okkur draumana okkar. Við verðum bjartsýnni og líður betur andlega og líkamlega.

Hér eru samt nokkur atriði til að hafa í huga, þegar að við æfum okkur í að sjá fyrir okkur árangurinn sem við viljum sjá:

Ekki einblína á veraldlega hluti heldur allt hitt: Já, í staðinn fyrir að láta þér bara dreyma um stærra hús, betri vinnu, æðisleg föt eða geggjaðan bíl eigum við frekar að sjá fyrir okkur ánægjuna sem hlýst af því að njóta árangursins. Hversu ánægð við verðum á nýja fallega heimilinu okkar, hvernig okkur líður í nýja draumastarfinu, hversu vel okkur líður þegar við höfum náð heilsumarkmiðunum okkar og svo framvegis.

Ekki búast við að fá allt upp í hendurnar. Því rannsóknir sýna að lykilatriðið snýst einmitt um að gera ráð fyrir að þurfa að leggja töluvert á okkur til að ná þeim markmiðum og draumum sem við viljum ná.

Ekki gleyma þér í draumsýninni. Draumsýnin á að hjálpa okkur að vinna að því að ná markmiðunum okkar. Jafn mikilvægt er hins vegar að njóta augnabliksins sem við eigum hverja stund. Að lifa í núinu á alltaf að vera markmið líka.


Tengdar fréttir

Fullorðin og feimin: Átta góð ráð

Það er svo ömurlegt að upplifa sig einu manneskjuna í hópi sem þorir varla að segja eitt orð upphátt af feimni. Sérstaklega þegar svo virðist sem allir aðrir eigi svo auðvelt með þetta: Hlæja, tala saman. Spjalla í rólegheitunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.