Enski boltinn

Gary sem stal jólunum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gary Neville er ekki mikill aðdáandi hátíðanna.
Gary Neville er ekki mikill aðdáandi hátíðanna. Bradley Collyer/PA Images via Getty Images

Fyrrum fótboltamaðurinn Gary Neville er ekki mikill aðdáandi hátíðanna í desember. Einkar kassalaga maðurinn kann illa við að breytingu á rútínu sinni, hatar kalkún og vakir aldrei til miðnættis á gamlárskvöld.

„Ég get alveg slakað á. En jólin eru ekkert frábær, er það? Eftir fyrstu tvo tímana,“ sagði Neville í jólaþætti hlaðvarpsins The Overlap, aðspurður af kollega sínum Ian Wright hvernig hann hagaði jólunum.

Bretar halda jólin að jafnaði á jóladag, líkt og hefð er fyrir vestanhafs og víðar. Gjafir eru opnaðar að morgni til og jólamaturinn borðaður seinni part dags.

„Veistu hvað mér mislíkar? Að við borðum á skrýtnum tíma. Ég vil borða klukkan níu, eitt og sjö,“ segir vanafastur Neville við mikinn hlátur félaga sinna í settinu. „Maður borðar klukkan þrjú og hvað gerir maður svo? Það fer allt úr skorðum.“

Kalkúnn er vinsæll jólamatur í Bretlandi en Neville hefur áður sagst kunna illa við hann.

„Ég borða ekki kalkún, er það umdeild skoðun?“ sagði Neville þar. „Ég fæ mér nautakjöt eða eitthvað slíkt. Ég hata kalkún.“

Áramótin eru þá ekki Neville að skapi heldur. Jamie Carragher sagði sögu af því þegar Neville dreif sig heim að sofa löngu fyrir miðnætti þegar þeir félagar voru saman ein áramótin.

„Ég hef aldrei vakað eftir nýárinu. Kannski einu sinni, á aldamótunum, þá var stór veisla. En annars ekki. Ég vaki ekki til miðnættis. Mér finnst mjög furðulegt að fólk nenni að vaka til miðnættis,“ segir Neville.

Umræðu um skoðanir Neville á jólum og áramótum má sjá í efri spilaranum og hefst umræðan eftir 21 mínútu og 36 sekúndur. Kalkúnaumræðan er í neðri spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×