Skoðun

Þegar Sam­tök verslunar og þjónustu vita betur

Erna Bjarnadóttir skrifar

Í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins birtist grein eftir háskólalektorinn Kristin Má Reynisson en hann er jafnframt lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ). Í grein Kristins birtast skoðanir hans um alþjóðleg viðskipti og gengur hann svo langt að fullyrða að íslensk stjórnvöld viti betur en geri annað þegar að tollamálum kemur.

Háskóli Íslands og Samtök verslunar og þjónustu

Kristinn Már Reynisson er starfsmaður lagadeildar Háskóla Íslands en þar gegnir hann stöðu lektors og kennir að því er virðist félagarétt, alþjóðlegan skattarétt og umhverfisrétt kenndan við Evrópusambandið. Nú þekkir greinarhöfundur ekki hvaða reglur gilda hjá Háskóla Íslands um aukastörf fræðimanna en umhugsunarvert er að starfsmaður Háskóla Íslands skuli koma fram opinberlega fyrir hönd hagsmunasamtaka og fullyrða fullum fetum að íslensk stjórnvöld hagi stjórnsýslu sinni gegn betri vitund.

Samtök verslunar og þjónustu og samkeppnisréttur

Kristni Má er tíðrætt um virka samkeppni. Í grein hans segir m.a. að eitt „öflugasta verkfæri sem stjórnvöld hafa til að bæta hag neytenda er að tryggja virka samkeppni“ [...] og að „í virku samkeppnisumhverfi hagnist neytendur, því þeir geta valið hagstæðustu tilboðin, út frá verði og gæðum.“

Það verður ekki hjá því komist að benda á hversu hjákátlegt það er að lögfræðingur SVÞ kveði sér hljóðs um virka samkeppni þegar öllum er ljóst að vinnuveitandi hans, SVÞ, kann að sæta rannsókn Samkeppniseftirlitsins vegna yfirlýsinga Benedikts Benediktssonar, framkvæmdastjóra SVÞ, um að verð á ýmsum vörum muni hækka á næstu misserum.

Orð umrædds framkvæmdastjóra í fjölmiðlum um verðhækkanir voru svo afdráttarlaus, ásamt orðum annarra forsvarsmanna fyrirtækja, að Samkeppniseftirlitið sá sérstaka ástæðu til að birta fréttatilkynningu þar sem fullyrt var að yfirlýsingar forsvarsmanna hagsmunasamtaka um verðhækkanir kunni að brjóta gegn samkeppnislögum. Nægir að vísa til leiðbeiningarreglna Samkeppniseftirlitsins í því sambandi svo og fyrri sektarákvarðana Samkeppniseftirlitsins í málum Bændasamtaka Íslands og Samtaka fjármálafyrirtækja.

Um tolla og notkun þeirra í milliríkjaviðskiptum

En víkjum nánar að skoðunum háskólamannsins um tolla á innflutta matvöru og alþjóðleg viðskipti. Í grein sinni fullyrðir Kristinn að með því að leggja tolla á innflutta matvöru hamli stjórnvöld virkri samkeppni á grundvelli verðs og gæða og látið að því liggja að álagning tolla sé með öllu óeðlileg – þá er fullyrt að „tollar eru klunnalegt verkfæri sem aðeins getur hækkað verð“.

Greinarhöfundur er sérstakur áhugamaður um tolla og alþjóðleg viðskipti eins og ráða má af greinaskrifum undanfarin ár. Á skrifborði höfundar er kennslubók í alþjóðlegum vöruviðskiptarétti (e. international trade law) eftir Peter Van den Bossche, fv. prófessor í þjóða- og Evrópurétti við Maastricht háskóla, nú prófessor við Háskólann í Bern og fv. dómara við áfrýjunarnefnd hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni í Genf. Í bók hans kemur m.a. fram varðandi tolla að þeir séu lögmæt aðferð stjórnvalda til að ná tilteknum markmiðum – þar er t.d. vísað til ágreiningsmáls sem rekið var hjá Alþjóðlegu viðskiptastofnuninni gagnvart Indlandi frá 2008 en þar segir í lauslegri þýðingu:

„Tollar eru lögmæt aðferð [stjórnvalda] til að framfylgja tiltekinni stefnu á sviði viðskipta eða til að ná öðrum markmiðum, s.s. til að afla ríkinu tekna. Í raun eru tollar skv. GATT samningnum frá 1994 sú aðferð sem mælt er með á meðan kvótar eru að meginstefnu til bannaðir.“

Ef tollar eru „klunnalegt verkfæri“ er Kristinn þá að leggja til upptöku innflutningskvóta? Í sömu kennslubók er tekið fram að kvótar séu mun skaðlegri en tollar af þeirri einföldu ástæðu að þegar kvótinn er fylltur (t.d. 10.000 tonn af osti) þá er innflutningur umfram það magn óheimill – m.ö.o. innflutningur stoppar. Tollar eru mun betri því að innflytjendur geta ávallt flutt inn tiltekna vöru ef þeir einungis greiða tollinn.

Um alþjóðleg viðskipti

Greinarhöfundur getur ekki annað en tekið undir þá skoðun Kristins að alþjóðleg viðskipti séu forsenda góðra lífsgæða á Íslandi. Það er rétt. En eitthvað hefur skolast til í alþjóðlegum hagfræðikenningum háskólamannsins. Alþjóðaviðskipti byggjast á hagfræðikenningunni um „comparative advantage“ en hún felur í sér að þær þjóðir sem framleiða tiltekna vöru með tiltölulega minnsta tilkostnaði eigi að sérhæfa sig í framleiðslu þeirrar vöru – m.ö.o. Ísland á að sérhæfa sig í því sem það framleiðir best á meðan aðrar þjóðir eiga að sérhæfa sig í öðru.

Tökum dæmi. Ísland er með „comparative advantage“ í framleiðslu sjávarfangs miðað við aðrar þjóðir og því ætti Ísland að sérhæfa sig í að veiða fisk og flytja hann út. Með sama hætti ættu t.d. Spánverjar að sérhæfa sig í framleiðslu víns og flytja það út.

En Ísland er vissulega ekki með „comparative advantage“ í framleiðslu matvöru, s.s. landbúnaðarvara, vegna landfræðilegrar legu og getur því ekki keppt við aðrar þjóðir. En þar koma önnur sjónarmið til sögunnar eins og byggðaþróun, fæðuöryggi, og sjónarmið sem varða þjóðaröryggi og að hafa vald á eigin matvælaframleiðslu til sögunnar. Þar er komin ástæðan fyrir því af hverju Ísland leggur tolla á innflutta matvöru. Það er líka ástæðan fyrir því að langflest önnur ríki (t.d. Bandaríkin) og ríkjabandalög ( t.d. Evrópusambandið), leggja tolla á innflutta matvöru. Af hverju ætti Ísland að afnema tolla ef aðrir gera það ekki? Það er hins vegar það sem Kristinn og SVÞ leggur til en slík nálgun myndi hafa gríðarlega skaðleg áhrif á hinar dreifðari byggðir landsins, svo vægt sé til orða tekið, svo ekki sé minnst á fæðuöryggi og þjóðaröryggi.

Um hina betri vitund

Gera verður alvarlega athugasemd að háskólamaðurinn skuli halda því fram íslensk stjórnvöld hagi stjórnsýslu sinni gegn betri vitund. Á hvaða rökum byggir þessi afstaða? Þau rök eru ekki að finna í títtnefndri grein. Þar er þvert á móti er fullyrt að „[v]irk samkeppni um að selja íslenska vöru út og erlenda vöru til Íslands ætti að [...] að vera keppikefli íslenskra stjórnvalda sem umhugað er um velsæld almennings.“

Nú er að svo að íslensk landbúnaðarstefna og eftir atvikum tollframkvæmd er að meginstefnu til í samræmi við landbúnaðarstefnu og tollframkvæmd annarra EFTA ríkja, t.d. Noregs og Sviss. Eru þessi lönd á rangri braut að mati háskólamannsins? Um er að ræða ein ríkustu lönd í Vestur-Evrópu og víðar þar sem laun eru há í alþjóðlegum samanburði. Af þeirri ástæðu leiðir að framleiðsla þessara landa, t.d. varðandi matvöru, getur ekki keppt við matvöru sem framleidd er í Suður-Evrópu eða jafnvel utan Evrópu þar sem laun í landbúnaði eru 30-75% lægri en laun í þessum EFTA-löndum.

Niðurlag

Á þessum veika grunni, sem hér hefur verið reifaður, byggir háskólamaðurinn fullyrðingu sína um að íslensk stjórnvöld „viti betur“ – er hægt að taka afstöðu þessa alvarlega?

Íslensk sem og önnur stjórnvöld standa frammi fyrir fjölmörgum sviðsmyndum þegar kemur að tollum og innflutningi erlendrar matvöru. Íslensk stjórnvöld verða að gæta að matvælaöryggi, þjóðaröryggi, byggð um gjörvallt landið, o.fl. Sú sviðsmynd kallar á að tollar séu notaðir í alþjóðlegum viðskiptum ekki aðeins hér á landi heldur nær alls staðar í hinum vestræna heimi og víðar. Það er því ekkert óeðlilegt við það að íslensk stjórnvöld noti tolla – alveg með sama hætti og EFTA-ríkin, svo ekki sé minnst á ESB, nota tolla og hafa gert um áratugaskeið.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×