Erlent

Bif­reið ekið á hóp fólks á jóla­markaði

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. AP/Dörthe Hein

Bifreið var ekið á hóp fólks sem var samankomið á jólamarkaði í borginni Magdeburg í Þýskalandi klukkan 19.04 í kvöld. Ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi. Að minnsta kosti tveir eru látnir og tugir annarra slasaðir.

Samkvæmt þýsku fréttastofunni Spiegel var svörtum BMW keyrt á ofsafengnum hraða um 400 metra spöl á tugi gangandi vegfarenda á jólamarkaðnum. Samkvæmt fyrstu fregnum frá vettvangi var talið að einn væri látinn en nú hefur tala látinna risið. Barn er meðal þeirra látnu. Ekki er hægt að útiloka að fleiri hafi látist.

Samkvæmt fréttaveitu AFP eru um það bil 60 til 80 manns slasaðir en fimmtán af þeim alvarlega. Matthias Schuppe, talsmaður stjórnvalda í Þýskalandi sagði í tilkynningu að líklegast væri um skipulagða árás að ræða.

Myndskeiðið hér fyrir neðan er frá vettvangi og virðist sýna handtöku ökumannsins. Samkvæmt heimildarmanni Spiegel er ökumaðurinn 50 ára frá Sádí Arabíu og sagt er að hann hafi starfað sem læknir í Þýskalandi frá árinu 2006. Maðurinn var einn að verki.

Jólamarkaðurinn er við ráðhús borgarinnar og er sagt að ökumaðurinn hafi keyrt í beina átt að ráðhúsinu. Myndefni frá vettvangi hafa farið í dreifingu á netinu sem sýnir tugi manna liggja á jörðinni eftir atvikið. Viðbragðsaðilar eru á vettvangi. Biðlað er til fólks að yfirgefa miðborgina.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði í færslu á X að hugur hans væri hjá fórnarlömbum árásarinnar. „Fyrstu fregnir frá Magdeburg fá okkur til að óttast það versta,“ skrifaði hann og þakkaði öllum viðbragðsaðilum fyrir vel unnin störf.  

Ægir Þór Eysteinsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfestir í samtali við fréttastofu að enginn Íslendingur hafi haft samband við borgaraþjónustuna og óskað eftir aðstoð eins og stendur.

Mikil viðbúnnaður er á vettvangi. Viðbragðsaðilar hlúa að tugi manna.AP/Dörthe Hein



Fleiri fréttir

Sjá meira


×