Sport

Aron Leó með mikla yfir­burði og tryggði sér beltið

Aron Guðmundsson skrifar
Aron Leó tryggði sér veltivigtarbeltið á bardagakvöldi Caged Steel í Doncaster um nýliðna helgi.
Aron Leó tryggði sér veltivigtarbeltið á bardagakvöldi Caged Steel í Doncaster um nýliðna helgi. Samsett mynd

Fimm bar­daga­menn frá Reykja­vík MMA tóku þátt á bar­daga­kvöldinu Cage Steel 38 um nýliðna helgi í Donca­ster Bar­daga­kvöldið ein­kenndist af áskorunum en einnig sigrum þar sem að Aron Leó Jóhanns­son tryggði sér meistara­beltið í velti­vigtar­flokki.

Upp­haf­lega stóð til að aðeins fjórir kepp­endur myndu berjast á kvöldinu frá Reykja­vík MMA. Þeir Há­koni Örn Arnórs­son, Yona­tan Francisco Romero Cruz, Jhoan Salinas og Aron Leó Jóhanns­son. Skömmu fyrir bar­daga­kvöldið bættist hins vegar Aron Kevin­son í hópinn og tók þátt með aðeins klukku­stundar­fyrir­vara eftir að einn bar­daga­kappi kvöldsins dró sig frá keppni.

Sterkt upp­haf kvöldsins

Ekki er hægt að segja annað en að kvöldið hafi byrjað á bombu fyrir Reykja­vík MMA þegar að Hákön Örn steig fyrstur í hringinn og rotaði Alex Tamas eftir einungis um hálfa mínútu í fyrstu lotu. „Há­kon sýndi gríðar­lega áræðni og nákvæmni í sínum fyrstu höggum, sem lofar góðu fyrir framtíð hans í íþróttinni,“ segir í til­kynningu Reykja­vík MMA um frammistöðu Há­konar.

Erfitt kvöld fyrir Yona­tan

Yona­tan var næstur í hringinn og varði Bantam-belti sitt í áhuga­manna­flokki gegn Arnan Olip­hant. Þrátt fyrir sterka byrjun á fyrstu lotu, þar sem hann reyndi að stjórna bar­daganum með glímutökum, tókst Olip­hant að halda honum í skefjum og sigra tvær fyrstu loturnar. Í þriðju lotu jók Yona­tan ák­efð sína og reyndi að snúa bar­daganum sér í vil, en Olip­hant hélt yfir­höndinni og sigraði með ein­róma dómaraákvörðun.

Stökk inn með skömmum fyrirvara

Þá var röðin komin að Aroni Kevin­son sem sló til og mætti Ryan Shaw í búrinu með skömmum fyrir­vara. Fyrstu tvær loturnar voru ró­legar þar sem Shaw sýndi gott box og hélt Aroni á varfærnum nótum. Í þriðju lotu kom Aron þó sterkur inn og reyndi að ná rot­höggi, en Shaw hélt út og vann bar­dagann á stigum.

Von­brigði hjá Jhoan Salinas

Jhoan Salinas mætti Mason Yar­row og stóð sig frábær­lega framan af bar­daga. Hann sýndi mikla ák­efð og átti yfir­höndina þar til Yar­row náði að festa hann í þríhyrnings­upp­gjafar­taki. Þrátt fyrir góða frammistöðu endaði bar­daginn með ósigri fyrir Salinas, sem var svekkjandi niður­staða.

Stór­sigur hjá Aroni Leó 

Síðasti bar­dagi kvöldsins af hálfu Reykja­vík MMA var bar­dagi Arons Leós Jóhanns­sonar, sem barðist um velti­vigtar­titilinn í at­vinnu­manna­flokki og mætti þar reynslu­boltanum Jonny Brock­les­by. Sá átti hins vegar lítið í Aron sem var með yfir­burði allt kvöldið. Aron sýndi mikla yfir­vegun og stjórn, bæði standandi og í gólfinu, og kláraði bar­dagann með upp­gjafar­taki í annarri lotu. „Með þessum sigri undir­strikar Aron Leó stöðu sína sem einn efni­legasti bar­dagamaður Ís­lands og er spennandi að fylgjast með hversu langt hann getur náð,“ segir í til­kynningu Reykja­vík MMA en þetta var þriðji atvinnumannabardagi Arons í MMA. Hann hefur unnið alla þrjá til þessa. 

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×