Innlent

Kosninga­lof­orð, dauð at­kvæði, staða VG og á­kall heil­brigðis­stétta

Eiður Þór Árnason skrifar
Sprengisandur hefst klukkan 10. Kristján Kristjánsson stýrir þættinum að venju.
Sprengisandur hefst klukkan 10. Kristján Kristjánsson stýrir þættinum að venju.

Húsnæðismálin, úrslit nýafstaðinna kosninga og sameiginlegt ákall heilbrigðisstétta verða til umfjöllunar í Sprengisandi á Bylgjunni sem hefst klukkan 10. 

Húsnæðismálin verða eitt stærsta mál nýrrar ríkisstjórnar og hafa stjórnmálaflokkarnir lofað skjótvirkum úrbótum á löskuðu kerfi. Már Wolfgang Mixa, hagfræðingur, dósent við Háskóla Íslands og sérfræðingur í húsnæðismálum mætir til Kristjáns Kristjánssonar og fer yfir það hversu raunhæfar þessar hugmyndir eru.

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur, Birgir Ármannsson, fráfarandi forseti Alþingis og Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur fara svo yfir íslenska kosningakerfið. Mikil umræða hefur skapast eftir að ljóst varð að tíu prósent atkvæða fóru til flokka sem komust ekki inn á þing í nýafstöðnum kosningum.

Heilbrigðisstéttir taka höndum saman

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og Björn Leví Gunnarsson, fráfarandi þingmaður Pírata ræða einnig úrslit kosninganna og erfiða stöðu sinna flokka sem féllu báðir út af þingi.

Að lokum munu Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga og Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir ræða sameiginlegt ákall breiðfylkingar heilbrigðisstétta til nýrrar ríkisstjórnar um úrbætur í heilbrigðismálum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×