Körfubolti

Fær meira fyrir að tala í hálf­tíma en fyrir heilt tíma­bil í WNBA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Caitlin Clark er ein skærasta íþróttastjarna Bandaríkjanna.
Caitlin Clark er ein skærasta íþróttastjarna Bandaríkjanna. vísir/getty

Körfuboltastjarnan Caitlin Clark er talin hafa fengið meira borgað fyrir einn hálftíma fyrirlestur en hún fékk í laun fyrir allt síðasta tímabil í WNBA.

Clark sló í gegn á sínu fyrsta tímabili í WNBA og vakti áður óþekktan áhuga á deildinni. Clark var valinn nýliði ársins með næstum því öllum greiddum atkvæðum og fjölmörg áhorfs- og áhorfendamet voru slegin á leikjum liðs hennar, Indiana Fever.

Mikil eftirspurn er eftir Clark og hún kann greinilega að nýta sér það. Hún býður nefnilega upp á fyrirlestra í gegnum fjarfundarbúnað. Fyrir hálftíma fyrirlestur rukkar hún hundrað þúsund dollara, eða 13,9 milljónir íslenskra króna.

Það er meira en Clark fékk í laun fyrir að spila með Indiana á síðasta tímabili. Talið er að hún sé með 76.535 dollara í laun, eða 10,6 milljónir íslenskra króna.

Þótt launin séu ekki há miðað við launin í karlaboltanum þarf Clark ekki að hafa áhyggjur af því að eiga ekki fyrir salti í grautinn. Hún er með alls konar styrktarsamninga og hefur nú þegar haldið sex fyrirlestra sem hafa skilað henni sex hundruð þúsund dollurum. Það gera rúmlega 83 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×