Innlent

Tekist að opna alla kjör­staði í Norðaustur­kjör­dæmi

Kjartan Kjartansson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Stimplar með listabókstöfum flokkanna sem eru í framboði í alþingiskosningunum.
Stimplar með listabókstöfum flokkanna sem eru í framboði í alþingiskosningunum. Vísir/Vilhelm

Framkvæmd alþingiskosninganna í Norðausturkjördæmi hefur gengið betur en menn þorðu að vona þrátt fyrir að færð hafi spillst af völdum veðurs, að sögn varaformanns yfirkjörstjórnar kjördæmisins. Tekist hefur að opna alla kjörstaði í kjördæminu.

Gul viðvörun vegna norðanhríðar er nú í gildi á Norðausturlandi og erfið færð sums staðar. Eva Dís Pálmadóttir, varaformaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis, segir að kosningarnar hafi farið af stað betur en þau þorðu að vona.

Kjörsókn fari vel af stað og fólk komi nokkuð snemma á kjörstað. Sums staðar hafi heimreiðar verið ófærar en sveitarfélög hafi gripið til ráðstafana til að hjálpa fólki að komast leiðar sinnar. Kjörstjórnir eigi í góðu samstarfi við Vegagerðina sem stefni að því að opna þær leiðir sem hafa lokast.

„Við erum vongóð um að allt gangi samkvæmt áætlun þar til annað kemur í ljós,“ segir Eva Dís.

Klukkan ellefu höfðu um 7,9 prósent kjósenda á kjörskrá greitt atkvæði á kjörstað í Norðausturkjördæmi. Þá eru ótalin utankjörfundaratkvæði, að því er kemur fram í tilkynningu frá yfirkjörstjórn kjördæmisins.

Spáð er slæmu veðri og hættu á samgöngutruflunum á Suðausturlandi, Austurlandi, Norðurlandi eystra og vestra og Ströndum í dag og fram á morgundaginn. Áhyggjur hafa jafnvel verið uppi um að fresta þyrfti kjörfundi á einhverjum stöðum vegna veðurs og færðar. Það tefði talningu atkvæða alls staðar á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×