Erlent

Assad-liðar gefa hratt eftir í Aleppo

Samúel Karl Ólason skrifar
Uppreisnar- og vígamenn í Idlib-héraði í gær.
Uppreisnar- og vígamenn í Idlib-héraði í gær. AP/Omar Albam

Uppreisnar- og vígamenn hafa sótt hratt inn í borgina Aleppo í Idlib-héraði í Sýrlandi í dag. Svo virðist sem að varnir hers Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, hafi brostið og hafa stórir hlutar borgarinnar, sem var sú stærsta í Sýrlandi á árum áður fallið. Þá hafa fregnir borist af því að umfangsmikil vopnabúr hafi fallið í hendur uppreisnarmanna.

Aleppo var lengi eitt af höfuðvígum uppreisnarinnar í Sýrlandi en féll í hendur Assad-liða, eftir umfangsmikil og langvarandi átök, árið 2016.

Víglínan í Idlib hafði þó að mestu verið óhreyfð um árabil. Sókn uppreisnarmannanna að borginni kom Assad-liðum í opna skjöldu og hefur hún gengið hratt á undanförnum dögum.

Sóknin er leidd af sveitum Hayat Tahrir al-Sham, eða HTS, sem er í einföldu máli sagt vígahópur sem tengdist á árum áður al-Qaeda og hét þá Nusra Front. Hópurinn, sem leiddur er af manni sem heitir Abu Mohammed al-Joulani, er nú talinn sá stærsti af uppreisnarhópum í Sýrlandi. Áhugasamir geta lesið frekar um HTS á vef Center For Strategic & International Studies.

Áhugasamir geta séð grófa mynd af stöðunni við Aleppo á korti, hér á vef Liveuamap.

Sjá einnig: Sækja óvænt og hratt að Aleppo

Fregnir eru enn á miklu reiki en talið er að að uppreisnarmenn hafi laumað sveitum inn í Aleppo áður en sóknin að borginni hófst og þar hafi þessar sveitir fellt leiðtoga Assad-liða, og mögulega þar á meðal íranskan herforingja, og grafið undan vörnum þeirra.

Einnig hafa heyrst sögusagnir af því að hópar hermanna hafi gefist upp fyrir uppreisnarmönnum. Margt er þó enn óstaðfest að svo stöddu.

Utanríkisráðherra Íran hefur sakað Bandaríkjamenn og Ísrael um að bera ábyrgð á árásinni og hefur heitið áframhaldandi stuðningi við Assad. Dmitrí Peskóv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, sagði við blaðamenn í morgun að yfirvöld í Sýrlandi þyrftu að ná fljótt tökum á ástandinu og koma aftur á lögum og reglu.

Íranar og Rússar eru stuðningsmenn Assad og innkoma þeirra og Hezbollah-samtakanna inn í borgarastyrjöldina í Sýrlandi á árum áður kom líklega í veg fyrir að Assad yrði velt úr sessi. Hversu mikinn stuðning Assad-liðar geta reitt á úr þessum áttum að þessu sinni er þó óljóst.

Rússar eiga eins og frægt er fullt í fangi með innrás í Úkraínu. Þá hafa átök milli Ísrael annars vegar og Íran og Hezbollah hinsvegar komið verulega niður á bæði Hezbollah og Byltingarverði Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×