Handbolti

Skrýtið en venst

Valur Páll Eiríksson skrifar
Perla Ruth Albertsdóttir og Andrea Jacobsen gefa hvor annari fimmu. Báðar eru í íslenska hópnum sem undirbýr sig fyrir komandi mót.
Perla Ruth Albertsdóttir og Andrea Jacobsen gefa hvor annari fimmu. Báðar eru í íslenska hópnum sem undirbýr sig fyrir komandi mót. Vísir/Hulda Margrét

Finna má eftirvæntingu í íslenska landsliðshópnum sem hefur keppni á EM kvenna í handbolta á föstudaginn kemur. Liðið hefur komið sér vel fyrir í Ólympíubænum Innsbruck þar sem herlegheitin fara fram.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Innsbruck

Kvennalandslið Íslands æfði í krúttlegum æfingasal við hlið keppnishallarinnar síðdegis hér ytra og mátti finna gleði og spennu í loftinu. Þær eldri rúlluðu yfir þær sem yngri eru í fótbolta í upphitun áður en alvaran tók við á æfingu dagsins.

Íslenska liðið átti fína tvo leiki við Sviss í aðdragandanum sem töpuðust þó báðir grátlega með einu marki.

Þær Thea Imani Sturludóttir og Andrea Jacobsen voru teknar tali fyrir æfingu dagsins og sögðu úrslitin vissulega vonbrigði en að íslenska liðið hefði sýnt margt gott í leikjunum og virtust báðar meðvitaðar um að aðeins væri um æfingaleiki að ræða.

Andrea átti sérlega góðan síðari leik og var markahæst í íslenska liðinu með níu mörk. Hún segir það koma sér vel að mæta af slíkum krafti á komandi mót.

Vel fer um liðið á liðshótelinu sem er jafnframt gististaður andstæðinganna í riðlinum. Skrýtið en venst segja okkar konur.

Næsta æfing er í hádeginu á morgun og munu stelpurnar þá æfa í keppnishöllinni, sem er öllu stærri en æfingasalurinn.

Það styttist í að þetta fari allt saman af stað. Gríðarsterkt lið Hollands er fyrsti andstæðingurinn á föstudagskvöldið kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×