Upp­gjörið: FH - Fenix Toulouse 25-29 | Tap í síðasta Evrópuleik FH-inga

Andri Már Eggertsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson í baráttunni í leik kvöldsins
Ásbjörn Friðriksson í baráttunni í leik kvöldsins Vísir/Anton Brink

FH mætti Fenix Toulouse í lokaleik sínum í H-riðli Evrópudeildarinnar í handbolta karla. Heimamenn gerðu aðeins sjö mörk í fyrri hálfleik og töpuðu að lokum 25-29. 

Heimamenn byrjuðu illa og lentu snemma undir. FH-ingar voru í vandræðum sóknarlega og gerðu aðeins eitt mark á fyrstu tíu mínútunum. Jef Lettens, markmaður Fenix Toulouse, varði 5 skot á fyrstu tíu mínútunum og var með 83 prósent markvörslu. Í stöðunni 1-5 tók Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, leikhlé.

Jón Bjarni Ólafsson skoraði 5 mörk í kvöldVísir/Anton Brink

Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn var betri taktur í sóknarleik FH-inga. Varnarleikurinn varð einnig betri og Daníel Freyr Andrésson, markmaður FH, hélt sínu striki og tók nokkra bolta líkt og í upphafi fyrri hálfleiks.

Fyrri hálfleikur endaði á því að Jóhannes Berg Andrason komst í gegn en klikkaði og gestirnir frá Frakklandi fengu hraðaupphlaup og skoruðu. Saga fyrri hálfleiks í hnotskun. FH var sjö mörkum undir í hálfleik.

Jef Lettens varði 13 skot í fyrri hálfleikVísir/Anton Brink

Þjálfarar beggja liða virtust hafa verið ósáttir hversu hægir leikmenn voru í fyrri hálfleik. Það var allt annað að sjá ákefðina og orkuna í upphafi síðari hálfleiks hjá báðum liðum. Hraðinn varð meiri og það var skemmtilegra að horfa á leikinn.

Sigursteinn Arndal að ræða við sína menn í leikhléiVísir/Anton Brink

Það var allt annað að sjá FH-inga í seinni hálfleik og þegar tæplega tvær mínútur voru eftir var munurinn aðeins tvö mörk. Allt kom fyrir ekki og gestirnir frá Frakklandi unnu að lokum 25-29.

Atvik leiksins

Undir lok fyrri hálfleiks átti Ingvar Dagur Gunnarsson skot yfir allan völlinn í opið mark en klikkaði. Saga fyrri hálfleiks í hnotskun þar sem FH-ingar gerðu aðeins sjö mörk.

Stjörnur og skúrkar

Jef Lettens, markmaður Fenix Toulouse, fór á kostum í fyrri hálfleik og sá til þess að FH skoraði aðeins sjö mörk á 30 mínútum. Lettens var með 13 varin skot í fyrri hálfleik og var með 65 prósent markvörslu. Lettens þakkaði síðan fyrir sig í dag og spilaði ekkert í síðari hálfleik.

Jóhannes Berg Andrason, leikmaður FH, var í vandræðum sóknarlega í fyrri hálfleik ásamt mörgum öðrum. Hann var mikið í boltanum í fyrri hálfleik en skoraði aðeins eitt mark úr sjö tilraununum. Í síðari hálfleik bretti upp ermarnar og spilaði töluvert betur og endaði með sex mörk úr þrettán tilraunum.

Dómararnir [7]

Dómaraparið kom frá Finnlandi en þeir Johan Skogberg og Sami Kinnari dæmdu leikinn. Eftirlitsdómarinn var Dani og heitir Per Olesen.

Dómararnir dæmdu leikinn nokkuð vel. Þeir leyfðu ákveðna hörku og voru ekki að dæma að óþörfu en það gekk í báðar áttir og það hallaði ekki á neinn.

Stemning og umgjörð

Mætingin í kvöld var því miður ekki góð. Miðað við hversu vel heppnað það var þegar FH og Valur héldu saman Evróputvennu þá er eftir á að hyggja svekkjandi að félögin hafi ekki tekið sig oftar saman vegna þess að það var himinn og haf á milli leiksins í kvöld og þann 15. október síðastliðinn.

„Vorum hrikalega slappir sóknarlega í fyrri hálfleik“

Jóhannes Berg Andrason, leikmaður FH, skoraði sex mörk í kvöldVísir/Anton Brink

Jóhannes Berg Andrason, leikmaður FH, var svekktur út í fyrri hálfleik liðsins þar sem FH-ingar gerðu aðeins sjö mörk.

„Við áttum mikið inni eftir þennan fyrri hálfleik. Við vorum hrikalega slappir sóknarlega í fyrri hálfleik en þegar við erum á deginum okkar þá finnst mér þetta vera tvö jöfn lið,“ sagði Jóhannes Berg í samtali við Vísi eftir leik og hélt áfram.

„Við vorum ekki að fara eftir leikplaninu og við vorum hægir. Við hefðum átt að sleppa bremsunum og keyra meira á þetta.“

Jóhannes Berg gerði aðeins eitt mark í fyrri hálfleik en endaði með sex mörk og var ánægður með sinn leik í síðari hálfleik.

„Ég sleppti bremsunni og fór að njóta þess að spila. Þetta var síðasti hálfleikurinn í þessari keppni og ég fór að njóta þess að spila.“

Aðspurður út í það hvernig það hafi verið fyrir hann og liðið að taka þátt í þessari Evrópudeild var Jóhannes mjög ánægður með þátttökuna.

„Þetta var mjög gaman. Við getum tekið fullt jákvætt út úr þessari keppni og mér finnst við vera búnir að læra fullt úr öllum þessum leikjum sem við höfum spilað. Þetta á eftir að nýtast okkur í framhaldinu,“ sagði Jóhannes Berg að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira